Lög Félags leiðsögumanna

Efnisyfirlit

I. KAFLI

Nafn félagsins, hlutverk og félagsaðild

1. gr. Nafn

Félagið heitir Félag leiðsögumanna. Félagssvæði þess er allt landið og heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk

Félagið er fagfélag leiðsögumanna á Íslandi og stéttarfélag launafólks sem stundar leiðsögn ferðamanna á Íslandi og fararstjórn erlendis.

Tilgangur félagsins er: a) Að sameina innan sinna vébanda faglærða leiðsögumenn á Íslandi.

b) Að sameina innan sinna vébanda þá sem starfa við leiðsögn ferðamanna hér á landi og við fararstjórn erlendis.

c) Að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör þeirra, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á lagalegan og samningsbundinn rétt þeirra.

d) Stuðla að aukinni menntun og starfshæfni félagsmanna og samvinnu þeirra. e) Að stuðla að góðri umgengni um landið.

3. gr. Aðild

Aðild að Félaginu leiðsögumanna getur falist í:

1. Fagfélagsaðild

2. Stéttarfélagsaðild

3. Aukin aðild

3.1. Fagfélagsaðild

Fagfélagsaðild geta öðlast: Þeir sem hafa lokið leiðsögunámi frá skóla sem mennta- og menningarmálaráðuneytið viðurkennir og kennir samkvæmt gildandi námskrá ráðuneytisins.

3.2. Stéttarfélagsaðild Stéttarfélagsaðild geta öðlast:

1. Þeir sem stunda leiðsögn ferðamanna á Íslandi

2. Þeir sem stunda fararstjórn á vegum íslenskra fyrirtækja erlendis.

3.3. Aukin aðild

Aukna aðild öðlast allir þeir sjálfkrafa sem eru með stéttarfélagsaðild og fagfélagsaðild á sama tíma.

3.4. Önnur skilyrði

Enginn getur orðið félagi í Félagi leiðsögumana, sem er skuldugur eða stendur á annan hátt í óbættum sökum við annað félag í ASÍ, eða hefur verið vikið úr sambandsfélagi, nema til komi leyfi stjórnar þess félags er hann var áður í.

4. gr. Iðgjald og árgjald

4.1 Fagfélagsaðild
Þeir, sem telja sig eiga rétt á og óska eftir fagfélagsaðild að Félagi leiðsögumanna, skulu senda skriflega umsókn með pósti eða rafpósti. Í umsókn skal koma fram nafn, kennitala, heimilisfang, símanúmer, netfang og aðrar upplýsingar sem máli skipta. Umsókn skal fylgja staðfesting leiðsöguprófs frá skóla, sem mennta- og menningarmálaráðuneytið viðurkennir og kennir samkvæmt gildandi námskrá ráðuneytisins.
Ákvæði til bráðabirgða: Allir þeir sem voru félagar í Fagdeild Félags leiðsögumanna fram að aðalfundi 2007 öðlast sjálfkrafa fagfélagsaðild að Félagi leiðsögumanna með samþykkt þessara laga. Félagar með fagfélagsaðild borga fast fagfélagsgjald (árgjald). Aðalfundur ákveður upphæð fagfélagsgjalds á hverju ári.

4.2. Stéttarfélagsaðild

Allir félagar með stéttarfélagsaðild skulu greiða ákveðinn hundraðshluta af launum í félagssjóð (stéttarfélagsgjald). Atvinnurekendur draga þetta gjald af launum leiðsögumanns og skila því til Félags leiðsögumanna. Aðalfundur ákveður hlutfall stéttarfélagsgjalds á hverju ári. Lágmarksgjald til að öðlast stéttarfélagsaðild samsvarar hundraðshluta fyrir a.m.k. 15 daga vinnu samkvæmt lægsta taxta félagsins á hverjum tíma. Þessar greiðslur skulu hafa borist á síðastliðnum 12 mánuðum.

Félagar með stéttarfélagsaðild borga ekki fast árgjald.

5. gr. Einyrkjar

Þeir sem taka að sér leiðsögn fyrir ferðamenn eða fararstjórn erlendis sem undirverktakar ferðaþjónustufyrirtækja geta öðlast fagfélagsaðild, enda uppfylli þeir þau skilyrði sem lög Félags leiðsögumanna kveða á um (sbr. 3.1. og 4.1.).

Þeir geta einnig öðlast stéttarfélagsaðild, enda greiði þeir af launum sínum lögbundin gjöld til félagsins og sjóða þess (sbr. 3.2. og 4.2.). Sem verktakar skulu þeir einnig standa skil á greiðslum atvinnurekanda til sjóða félagsins sbr. gildandi kjarasamning. Þó njóta einyrkjar ekki kjörgengis til trúnaðarstarfa innan félagsins né atkvæðisréttar um kjaramál. Um önnur réttindi fer eftir lögum og reglugerðum félagsins.

6. gr. Leiðsögumenn eldri en 67 ára

Leiðsögumenn, sem orðnir eru 67 ára og hafa verið félagar í félaginu í þrjú ár hið minnsta áður en þeir hætta störfum, halda félagsaðild sinni þó þeir séu ekki starfandi sem leiðsögumenn og greiði hvorki stéttarfélagsgjald né fagfélagsgjald. Þeir hafa ekki atkvæðisrétt um kjarasamninga, en um önnur réttindi fer eftir lögum og reglugerðum félagsins.

Séu þeir starfandi leiðsögumenn eða fararstjórar, ber þeim að greiða hlutfallslegt félagsgjald skv. 4. gr. og halda þá óskertri stéttarfélagsaðild.

7. gr. Merki félagsins.

Merki (logo) félagsins, í hvaða mynd sem er, er eign þess. Einungis félagar með fagfélagsaðild hafa heimild til að bera það. Hvorki er leyfilegt að endurrita félagsmerkið til annarra nota, né sauma það í fatnað eða höfuðföt, án skriflegs leyfis stjórnarinnar. Fyrirtæki sem eingöngu eru með fullgilda, fagmenntaða leiðsögumenn, með staðfesta fagfélagsaðild í FL, í störfum sem snúa að leiðsögn geta sótt um leyfi stjórnar til að hafa félagsmerki FL í kynningargögnum sínum svo sem prentgripum (prentgögnum) og vefsíðum í kynningu á viðkomandi nafngreindum leiðsögumanni enda sé það gert skv. reglum um notkun merkisins. 

II. KAFLI

Réttindi og skyldur félagsmanna, stéttarfélagsgjald og réttindamissir

8. gr. Réttindi félagsmanna.

8.1. Réttindi félagsmanna eingöngu með fagfélagsaðild eru eftirfarandi:

a) málfrelsi, tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum svo og kjörgengi. Þó njóta þeir ekki atkvæðisréttar í tengslum við kjarasamninga og ekki kjörgengis í kjaranefnd.

b) réttur til að bera merki (logo) félagsins við vinnu sína í samræmi við lög félagsins og ákvarðanir stjórnar.

c) réttur til að skrá sig á lista yfir faglærða leiðsögumenn sem Félag leiðsögumanna útbýr og birtir í auglýsingaskyni.

8.2. Réttindi félagsmanna eingöngu með stéttarfélagsaðild eru eftirfarandi:

a) málfrelsi, tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum svo og kjörgengi. Þó njóta þeir ekki atkvæðisréttar í tengslum við mennta- og skólamál faglærða leiðsögumanna og ekki kjörgengis í fræðslu-, fag- eða skólanefnd.

b) atkvæðisrétt um kjarasamninga og verkfallsboðun hafa þeir einir sem greitt hafa a.m.k. fjórfalt lágmarksgjald til að öðlast stéttarfélagaðild sbr. gr. 4.2.

c) réttur á greiðslum úr sjóðum félagsins svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðum sjóðanna. d) réttur til aðstoðar félagsins vegna vanefnda atvinnurekenda á kjarasamningum. 8.3. Félagsmenn með aukna aðild njóta réttinda skv. 8.1 og 8.2.

9. gr. Skyldur

Skyldur félagsmanna:

a) að hlýða lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og samningum í öllum atriðum.

b) að greiða tilskilin gjöld til félagsins.

c) að bera merki félagsins við vinnu sína. d) að vinna a.m.k. 75 daga á hverju 5 ára tímabili til að halda fagréttindum sínum eða sækja upprifjunar- eða símenntunarnámskeið á tímabilinu. Sinni félagi hvorugu þessara ákvæða, verður nafn hans tekið af félagaskrá. Þessi liður á ekki við óvirka félaga á eftirlaunum.

10. gr. Brottvikning/áminning

Ef félagsmaður er talinn brjóta gegn lögum félagsins eða vinna gegn hagsmunum þess skal málið tekið fyrir á stjórnarfundi sem ákveður með einföldum meirihluta hvort veita skuli áminningu eða víkja beri honum úr félaginu. Skjóta má þeim úrskurði til félagsfundar.

11. gr. Stéttarfélagsgjald og fagfélagsgjald

Aðalfundur ákveður stéttarfélagsgjald sem skal vera ákveðinn hundraðshluti af öllum greiddum launum frá atvinnurekanda. Aðalfundur ákveður fast fagfélagsgjald á ári hverju.

III. KAFLI. Stjórn, trúnaðarráð og nefndir

12. gr. Stjórn

Stjórn félagsins skal skipuð 7 aðalmönnum, formanni og sex öðrum. Formaður skal kosinn beinni kosningu til tveggja ára í senn, en aðrir stjórnarmenn er kosnir til þriggja ára - tveir í senn. Stjórn skiptir með sér verkum varaformanns, ritara og gjaldkera á fyrsta fundi eftir aðalfund. Formaður skal ævinlega vera með fagfélagsaðild. Af stjórnarmönnum skulu á hverjum tíma að minnsta kosti tveir hafa fagfélagsaðild eða aukna aðild og tveir stéttarfélagsaðild eða aukna aðild. Kosning skal vera hlutfallskosning.

13. gr. Hlutverk stjórnar

Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Stjórnin boðar til félagsfunda og aðalfundar, hún ræður starfsmenn félagsins, ákveður laun þeirra og vinnuskilyrði. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eignum og sjóðum félagsins sem og rekstri skrifstofu þess. Stjórn félagsins er skylt að fara að lögum félagsins og ályktunum meirihluta félagsmanna á löglega boðuðum félagsfundum. Samþykki félagsfundur ályktun, sem telst hafa víðtæk áhrif á starfsemi félagsins, er stjórn heimilt að vísa henni til allsherjaratkvæðagreiðslu innan mánaðar frá samþykkt hennar. Við undirbúning allsherjaratkvæðagreiðslu skal þess gætt, að greinargerðir flytjenda samþykktra ályktunartillagna verði birtar með kjörgögnum. Skylt er stjórn félagsins að stuðla að því að allt er varðar sögu þess sé sem best varðveitt. Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum er hann gegnir fyrir félagið er honum skylt að skila af sér öllum gögnum er trúnaðarstörf hans varða.

14. gr. Formaður

Formaður er framkvæmdastjóri félagsins. Formaður kallar saman stjórn. Formanni er skylt að kalla saman stjórn óski a.m.k. tveir stjórnarmenn eftir því. Formaður undirritar gerðabækur félagsins og gætir þess að allir stjórnarmenn geri skyldu sína. Formaður hefur eftirlit með starfsemi félagsins og því að lögum þess og samþykktum sé fylgt í öllum greinum. Varaformaður gegnir öllum störfum formanns í forföllum hans.

15. gr. Ritari

Ritari ber ábyrgð á að gerðabækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundagerðir og lagabreytingar. Hann undirritar gerðabækur ásamt formanni. Heimilt er að hljóðrita fundi félagsins samþykki fundarmenn það. Ritari ber ábyrgð á birtingu fundargerða félags- og stjórnarfunda á vefsíðum félagsins innan 10 daga frá hverjum fundi.

16. gr. Gjaldkeri

Gjaldkeri er ábyrgur fyrir eftirliti með bókhaldi, fjárreiðum og innheimtu félagsgjalda. Gjaldkeri skal hafa umsjón með stöðumati einstakra félagsmanna og reikna út punktastöðu þeirra og uppfæra í félagatali fyrir aðalfund ár hvert. Hann skal tilkynna stjórn félagsins um félaga, sem hafa ekki uppfyllt skilyrði skv. d-liðar 9. gr. félagslaga.

17. gr. Trúnaðarráð

Í Félagi leiðsögumanna skal starfa trúnaðarráð. Í trúnaðarráði eiga sæti stjórn félagsins, sex félagsmenn og jafn margir varamenn. Formaður félagsins skal vera formaður trúnaðarráðs og ritari félagsins ritari þess. Formaður kveður trúnaðarráð til fundar með þeim hætti sem hann telur best henta og er trúnaðarráðsfundur lögmætur þegar meirihluti ráðsins sækir fundinn. Formaður getur í nafni félagsstjórnar kallað saman trúnaðarráð stjórninni til aðstoðar þegar ýmis félagsleg vandamál ber að höndum og ekki eru tök á að ná saman félagsfundi og ræður einfaldur meirihluti úrslitum í slíkum málum.

18. gr. Kjaranefnd

Innan félagsins starfar kjaranefnd skipuð fimm félagsmönnum, þar af þremur með aukna aðild og tveimur með a.m.k. stéttarfélagsaðild. Kjaranefnd skal kosin á aðalfundi. Kjaranefnd skal í samstarfi við stjórn félagsins fylgjast náið með launaþróun og breytingum á vinnumarkaði. Kjaranefnd annast kjarasamningagerð fyrir hönd félagsins og getur hún kallað til liðs við sig aðra félagsmenn í þeim tilgangi.

19. gr. Ritnefnd

Innan félagsins starfar ritnefnd skipuð þremur félagsmönnum kosnum á aðalfundi. Hlutverk ritnefndar er að miðla eftir þörfum fréttnæmu efni sem snertir leiðsögumenn á Íslandi og starf Félags leiðsögumanna. Til þessa nýtir nefndin sér viðeigandi miðla í nafni Félags leiðsögumanna, s.s. rafrænt fréttabréf, Facebook- og vefsíðu félagsins.

Stjórn Félags leiðsögumanna ber ábyrgð á vefsíðu félagsins, jafnt efni hennar sem útliti, og að fréttir og annað efni tengt félaginu birtist fljótt og vel á vefsíðunni. Stjórnin tilnefnir ritstjóra vefsíðunnar úr sínum röðum og starfar hann í nánu samráði við stjórnina, skrifstofu og ritnefnd. Ritstjóri og ritnefnd móta vinnureglur um starf nefndarinnar, sem stjórn samþykkir, fyrir birtingu efnis í miðlum sem eru í nafni Félags leiðsögumanna.

20. gr. Fræðslunefnd

Innan félagsins starfar fræðslunefnd skipuð fimm félagsmönnum með fagfélagsaðild. Fræðslunefnd skal kosin á aðalfundi félagsins til tveggja ára. Hlutverk fræðslunefndar er að annast fræðslustarf félagsins fyrir faglærða leiðsögumenn. Fræðslunefnd efnir til fræðslufunda og námskeiða og birtir fræðsluefni og hagnýtar upplýsingar á heimasíðu félagsins.

21. gr. Skólanefnd

Innan félagsins starfar skólanefnd skipuð fimm félagsmönnum með fagfélagsaðild. Skólanefnd skal kosin á aðalfundi félagsins til tveggja ára. Hlutverk skólanefndar er að annast náið samstarf við skóla þar sem leiðsögn er kennd og menntamálaráðuneytið viðurkennir, þ.m.t. Leiðsöguskóla Íslands og Endurmenntun Háskóla Íslands, koma áliti fagmenntaðra leiðsögumanna á skólamálum til skila og vera tengiliður milli félagsins og skólans.

Skólanefnd skipar fulltrúa úr sínum röðum í ráðgjafa- og/eða skólanefnd ofangreindra skóla, eftir því sem óskað er eftir. Skólanefnd starfar í nánu samstarfi við stjórn Félags leiðsögumanna og skilar stjórn yfirliti yfir starf sitt svo oft sem þurfa þykir en að lágmarki einu sinni að vetri og einu sinni að vori.

IV. KAFLI. Fundir og kjör í trúnaðarstöður

22. gr. Félagsfundir

Félagsfundir skulu haldnir þegar félagsstjórn telur þess þörf eða minnst 20 félagsmenn óska þess skriflega við stjórn félagsins og tilgreina fundarefni. Boða skal til fundarins innan tveggja vikna frá því slík beiðni berst. Fundir skulu boðaðir með minnst þriggja daga fyrirvara með tölvupósti en bréflega til þeirra sem ekki hafa gefið upp netfang. Einnig skal birta auglýsingu á heimasíðu félagsins eða félagsblaði Félags leiðsögumanna. Þó má í sambandi við vinnudeilur boða fundi með skemmri fyrirvara. Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Verði ágreiningur um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri hverju sinni með rökstuddum úrskurði. Óski félagsmaður eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á félagsfundi er fundarstjóra skylt að verða við þeirri ósk. Í atkvæðagreiðslum á fundum félagsins ræður einfaldur meirihluti atkvæða nema lög kveði á um annað.

23. gr. Allsherjaratkvæðisgreiðsla

Allsherjaratkvæðagreiðsla skal fara fram:

a) þegar stjórn og trúnaðarráð telja mál svo mikilvæg að rétt sé að hafa slíka afgreiðslu.

b) þegar greiða þarf atkvæði um kjarasamninga.

c) þegar greiða þarf atkvæði um verkfallsboðun. Um framkvæmd alsherjaratkvæðagreiðslu fer samkvæmt lögum og reglugerð ASÍ

24. gr. Aðalfundur

Aðalfundur félagsins skal haldin á tímabilinu 1. mars til 1. maí ár hvert. Aðalfundur skal boðaður með dagskrá með a.m.k. einnar viku fyrirvara. Til fundarins er boðað með tölvupósti en bréflega til þeirra sem ekki hafa gefið upp netfang og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Á hverjum aðalfundi skal liggja frammi endurskoðuð félagaskrá yfir félaga með fagfélagsaðild sem og félaga með stéttarfélagsaðild og félaga með aukna aðild. Félagaskrá skal vera fjölrituð eða prentuð.

Komi fram tillögur um lagabreytingar skulu þær hafa borist til skrifstofu Félags leiðsögumanna fyrir 15.febrúar.

Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa þeir einir sem standa í skilum með tilskilin gjöld (þ.e. árgjald þegar um fagfélagsaðild er að ræða, stéttarfélagsgjald þegar um stéttarfélagsaðild er að ræða, sbr. 11. gr.). Gjöld þurfa að hafa skilað sér í síðasta lagi mánuði áður en til aðalfundar er boðað.

25. gr. Dagskrá

Dagskrá aðalfundar skal vera:

1. Skýrsla félagsstjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.

2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.

3. Tillögur um lagabreytingar ef fyrir liggja.

4. Drög að fjárhagsáætlun skal lögð fram og tillaga um stéttarfélagsgjald og fagfélagsgjald.

5. Kosning formanns eða lýsing formannskjörs.

6. Kosning til stjórnar og trúnaðarráðs, sem og í aðrar nefndir (ritnefnd, skólanefnd, fræðslunefnd og kjaranefnd) og trúnaðarstöður.

7. Kosning tveggja félagskjörinna skoðunarmanna reikninga til tveggja ára.

8. Önnur mál.

V. KAFLI

Sjóðir og fjármál

26. gr. Sjóðir

Sjóðir félagsins skulu vera:

1. Félagssjóður.

2. Sjúkrasjóður

3. Endurmenntunarsjóður

Svo og aðrir sjóðir sem stofnaðir kunna að verða.

Allir sjóðir félagsins aðrir en félagssjóður skulu hafa sérstaka reglugerð samþykkta á aðalfundi. Reglugerðum sjóða má aðeins breyta á aðalfundi. Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skulu vera, hvernig verja skuli fé hans og hvernig honum skuli stjórnað.

Félagssjóður greiðir allan kostnað af starfsemi félagsins.

Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt í ríkisskuldabréfum eða í ríkistryggðum skuldabréfum, í bönkum, í sparisjóðum og skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign. Við meiriháttar ráðstafanir á eignum félagsins þarf samþykki félagsfundar.

27. gr. Reikningsár

Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið.

28. gr. Endurskoðun.

Tveir félagskjörnir skoðunarmenn reikninga, sem kosnir eru á aðalfundi skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir við þá. Auk athugunnar hinna félagskjörnu skoðunarmanna er stjórn skylt að láta löggildan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins í lok hvers reikingsárs. Endurskoðaðir reikningar félagsins og sjóða þess skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins í a.m.k. í þrjá daga fyrir aðalfund. 

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

29. gr. Félagsslit

Félaginu verður ekki slitið nema a.m.k. ¾ félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu.

Stjórn og trúnaðarráð skulu skipa nefnd þriggja félagsmanna auk lögfræðings og löggilds endurskoðanda er komi fram með tillögu um ráðstöfun eigna félagsins við félagsslitin. Greiða skal atkvæði um tillögu nefndarinnar jafnhliða tillögu um félagsslit.

30. gr. Úrsögn

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg. Hún skal afhent formanni félagsins eða skrifstofu ásamt félagsskírteini og merki félagsmanna.

Enginn getur fengið samþykkta úrsögn úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félagsmönnum þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst.

31. gr. Lagabreytingar

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði.

Til þess að lagabreytingar nái fram að ganga skulu þær hljóta samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna.

Lagabreytingar taka gildi að fenginni staðfestingu miðstjórnar ASÍ.

32. gr. Úrsögn úr ASÍ

Um úrsögn úr ASÍ fer skv. lögum ASÍ.

Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins, 29. febrúar 2016