Fréttir

11. júlí 2018

Skýrsla um menntun leiðsögumanna

Menntun og starfsundirbúningur leiðsögumanna á Íslandi

Á aðalfundi Leiðsagnar - Stéttarfélags leiðsögumanna vorið 2017, var ákveðið að skipa starfshóp til að semja leiðbeinandi reglur um menntun leiðsögumanna á Íslandi og annarra starfsmanna í ferðaþjónustu sem eru félagar í Leiðsögn. Tillögurnar skyldu samræmast og uppfylla viðmiðanir staðals ÍST EN 15565:2008 um menntun leiðsögumanna og þá áttu tillögurnar að líta til þess hvernig raunfærnimati og mati á öðru námi sem nýtist í starfi leiðsögumanna verði háttað.

Starfshópurinn var skipaður með erindisbréfi í júlí 2017. Hann skipuðu:

 • Tryggvi Jakobsson landfræðingur, formaður, skipaður af Leiðsögn.
 • Hlíf Ingibjörnsdóttir ferðamálafræðingur og leiðsögumaður, skipuð af Leiðsögn.
 • Magnús Jónsson veðurfræðingur, skipaður af Leiðsögn.
 • María Guðmundsdóttir fræðslustjóri, tilnefnd af Samtökum ferðaþjónustunnar.
 • Snorri Valsson sérfræðingur hjá Vakanum, tilnefndur af Ferðamálastofu.

Starfshópnum var með erindisbréfi falin þau verkefni ályktun aðalfundar fól í sér, einkum eftirtalin atriði:

 • Að semja leiðbeinandi viðmiðunarreglur um menntun leiðsögumanna sem samræmast staðlinum ÍST EN 15565:2008. Viðmiðunarreglurnar verði rammi fyrir námstíma, skilgreiningu námsefnis og afmörkun fræðslusviða. Þeim fylgi námsmarkmið, þ.e. þær hæfnikröfur sem nemendur þurfa að uppfylla að námi loknu.
 • Að gera tillögur um hvernig eigi að leggja mat á þá menntun sem nýtist í leiðsögn sem aflað hefur verið í öðrum skólum en leiðsöguskólum, til uppfyllingar á viðmiðunarreglunum.
 • Að gera tillögur um hvernig eigi að leggja mat á starfsreynslu þannig að viðmiðunarreglurnar séu uppfylltar (raunfærnimat).
 • Að gera tillögur um hvernig, að settum slíkum viðmiðunarreglum, skuli leggja mat á það nám í leiðsögn sem í boði er hverju sinni og staðfesta, eftir því sem óskað er, að það uppfylli þær kröfur sem fyrrnefndar reglur gera.

Þá var bent á að hópurinn skyldi hafa til hliðsjónar skipulag náms í leiðsögn hér á landi, innihald námskrár og námslýsinga, ásamt námsframboði þeirra skóla sem hafa leiðsögunám í boði. Einnig skyldi hópurinn kynna sér námsskipulag í öðrum löndum sem byggja á framangreindum staðli.

Stjórnin þakkar starfshópnum fyrir vel unnið starf. Skýrsla hans er afar skilmerkileg og skýr og getur orðið grundvöllur að úrbótum í menntunarmálum leiðsögumanna og um leið stuðlað að auknum gæðum ferðaþjónustu á Íslandi. Gæðakröfur til þeirra sem annast leiðsögn ferðamanna eru ekki bara hagsmunamál leiðsögumanna heldur ferðaþjónustunnar í heild. Viðgangur hennar til lengri tíma ræðst örðu fremur af því orðspor sem af henni. Fagleg leiðsögn og kynning á landinu, náttúru þess, sögu, menningu og lífsháttum ræður mikli um hvernig til tekst.

Lesa meira »
10. júlí 2018

Kjarasamningur á ensku

Eftirspurn hefur verið eftir texta kjarasamnings Leiðsagnar á ensku eða öðrum erlendum tungumálum bæði af hálfu erlendra manna og kvenna, sem ráðin hafa verið til leiðsögustarfa hér á landi og vilja þekkja rétt sinn, en einnig af hálfu erlendra fyrirtækja, sem veita ferðaþjónustu hér á landi og vilja virða þær reglur sem hér gilda. Eins hafa þau þeirra, sem uppvís hafa orðið að því að fara á svig við reglurnar, bent á það sér til málsbóta að þau hafi ekki haft aðgengi að kjarasamningum á þeim skiljanlegu tungumáli.

Af þessum ástæðum réðst Leiðsögn í það að láta þýða kjarasamninginn á ensku, án 5. kafla hans og viðauka sem skipta þessa aðila ekki máli. Liggur hann nú fyrir og er einnig aðgengilegur á heimasíðunni undir flipunum Kjaramál > Kjarasamningar.

Lesa meira »
2. júlí 2018

Félagsmenn athugið.

Skrifstofa Leiðsagnar - stéttarfélags leiðsögumanna verður lokuð dagana 3. - 6. júlí vegna sumarleyfis.

Lesa meira »
29. júní 2018

Erlend ferðaþjónusta á Íslandi

Leiðsögn hefur lengi haft áhyggjur af því að starfsemi erlendra aðila í ferðaþjónustu hér á landi samrýmdist illa þeim reglum sem hér gilda á ýmsum sviðum og með því að sniðganga þær sköpuðu þessir aðilar sér forskot á innlenda aðila sem starfa að ferðamálum bæði fyrirtæki og einstaklinga. Félagið óskaði eftir og hélt sl. haust fund með Ferðamálastofu og SAF þar sem þessi mál voru rædd og samhljómur var um að nauðsyn bæri til úrbóta. Með vorinu og vaxandi fjölda gesta varð þessi starfsemi enn meira áberandi á meðan samdráttar fór að gæta hjá innlendum aðilum og í verkefnum leiðsögumanna. Þessi þróun er ekki einungis fjárhagslega skaðleg fyrir íslenska ferðaþjónustuaðila heldur til þess fallin að fella rýrð á hana og skemma orðspor hennar því hún stenst oft ekki þær kröfur um gæði og öryggi sem gera verður og er tíðum borin uppi af starfskröftum sem ekki hafa menntun eða kunnáttu til að sinna störfum sínum.

Með þetta að bakgrunni sendi Leiðsögn 11 júní sl. eftirfarandi minnisblað til Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu, Ferðamálastofu, Samgöngustofu, Ríkisskattstjóra og Vinnumálastofnunar:

Minnisblað um erlenda ferðaþjónustu á Íslandi

Á síðustu mánuðum hafa í vaxandi mæli komið upp mál vegna starfsemi erlendrar ferðaþjónustu sem rekin er hér á landi. Þess mál hafa vakið spurningar um hvort rétt sé staðið að málum. Sum þessara fyrirtækja virðast hafi fundið eða tekið sér leyfi til að fara leiðir framhjá þeim kvöðum sem hvíla á innlendum fyritækjum varðandi skráningu, leyfisveitingar, hlítni við kjarasamninga, skatta og skil á gjöldum eða njóta undanþága sem íslenskum aðilum standa ekki til boða. Þessi starfsemi bjagar samkeppni gagnvart íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum, sem í ferðaþjónustu starfa. Í mörgum tilvikum greiða þau laun undir gildandi lágmarkskjörum og losna við skatta og skyldur sem innlendir aðilar bera. Eftirtalin atriði eru meðal þess sem fram hefur komið við athugun á þeim gögnum sem félagið hefur undir höndum.

 • Erlend félög sem reka hér ferðaþjónustu, skipuleggja, selja og framkvæma hópferðir um landið eru með viðvarandi aðstöðu, eigin bílakost og annan búnað til starfseminnar, starfsfólk og húsnæði án þess að hafa fengið starfsleyfi sem ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa eins og kveðið er á um í lögum um skipan ferðamála.
 • Ferðaskipuleggjendur skulu skv. lögum reka starfsemi sína frá fastri starfsstöð. Erlendir aðilar ættu því að hafa útibú eða skráða fasta starfsstöð hér á landi. Útibú eða föst starfsstöð bæri sömu lagalegu skyldur og kvaðir og íslensk félög. Ætti að skila hér sköttum, skila staðgreiðslu af launum, tryggingagjald, stéttarfélagsgjöldum o.s.frv. af öllum sem hjá þeim starfa innlendum sem erlendum.
 • Í sumum tilvikum starfa innlendir menn hjá þessum fyrirtækjum og í auglýsingum er látið að því liggja að ferðir sé leiddar af staðkunnugum leiðsögumönnum en engar vísbendingar eru um launagreiðslur eða skil á gjöldum þessara starfsmanna.
 • Erlendir leiðsögumenn fyrirtækjanna eru sagðir ráðnir af evrópskum fyrirtækjum, starfi fyrir þau, taki laun eftir þarlendum kjarasamningum og sendir til starfa hér á landi. Í skjóli þess reyna fyrirtækin að komast fram hjá íslenskum reglum og kvöðum Í flestum tilvikum finnast engin dæmi um launagreiðslur en í öðrum tilvikum eru vísbendingar um að laun séu vangreidd.
  • Í mörgum tilvikum er um að ræða borgara ríkja utan EES sem ættu að hafa sérstök atvinnuleyfi sem þeir hafa ekki.
  • Þeir sem starfa hér á landi og vinnuveitandi þeirra hver svo sem hann er bundinn af íslenskum lögum um starfskjör launþega þ.m.t. að greiða að lágmarki skv. kjarasamnigi þess stéttarfélags sem hefur samningsrétt starfið. Þangað á félagið líka að greiða félagsgjöld af öllum leiðsögumönnumsem starfa hér á landi.
  • Launþegi sem starfar hér á landi er skattskyldur af launum sínum hér og launagreiðanda hans ber að halda eftir staðgreiðslu, greiða tryggingagjald o.s.frv. Réttur einstaklinanna til ívilnana skv. tvísköttunarsamning er mál milli þeirra og skattyfirvalda og sama er að segja um hugsanleg réttindi skv. EES samningunum.
 • Í sumum tilvikum er því haldið fram að þjórfé sem starfsmenn fái sé hluti launa fyrirtækisins og greiðsla þess jafnvel hluti. af skilmálum við sölu á ferðum. Það eigi að taka til greina við mat á því hvort samningsbundin laun séu greidd. Þjórfé er félaginu og skuldbindingum þess óviðkomandi. Greidd laun frá fyrirtækinu og iðgjöld í samræmi við þau er það sem skiptir máli við mat á því hvort fyrirtækið stendur við skyldur sínar hvort sem er gagnvart kjarasamningum eða skattyfirvöldum.
 • Nokkur hluti þeirra erlendu starfsmanna sem taldir eru leiðsögumenn eru ráðnir sem verktakar þótt þeir fullnægi ekki þeim skilyrððum sem RSK gerir til vertöku og eru því í reynd launþegar án atvinnuleyfis sé þess þörf og án réttarverndar sem launþegar eiga að njóta.
 • Nokkur stigsmunur er á hvernig og hversu langt hin erlendu fyrirtæki ganga í að sniðganga eða notfæra sér veikt regluverk. Greina má þessa meginhópa og á framangreint í mismiklum mæli við um þá:
  • Fyrirtækin sem flytja inn tímabundið bifreiðar til fólksflutninga og lausafjármuni til starfseminnar, hjól, tjöld o.s.frv. A.m.k. í sumum tilvikum eru bifreiðarnar ekki skráðar til fólksflutninga og ekið af mönnum sem ekki hafa aukin akstursréttindi. Þessi fyrirtæki fara yfirleitt með smáhópa um landið og kaupa gistingu og þjónustu í takmörkuðum mæli.
  • Fyrirtæki sem koma með stóra hópferðabíla sem reknir eru hér yfir sumartímann, ekið af erlendum bílstjórum og fylgt af erlendum hópstjórum.
  • Fyrirtæki sem koma með hópa og eigin hópstjóra/leiðsögumenn en leigja hópferðabifreiðar af íslenskum rútufyrirtækjum. Í sumum tilvikum reka þessir aðilar óskráða upplýsinga- og þjónustustarfsemi hér á landi

Framangreind upptalning sýnir að athugaverð efni eru af ýmsum toga og snerta margvísleg lagaákvæði og verkefni margra opinberra aðila sem hafa með höndum eftirlit með framkvæmd laga og reglna á ýmsum sviðum svo og hagsmuni fyrirtækja og starfsfólks í ferðaþjónustu.

Leiðsögn hefur rætt þetta mál eða anga þess við forstöðumenn þeirra stofnana og samtaka sem minnisblaðið er sent og leggur til að þeir setji sameiginlegan starfshóp með það verkefni að fara yfir reglur um starfsemi erlendra fyririrtækja sem veita ferðaþjónustu hér á landi í þeim tilgangi að skýra og skrá með skilmerkilegum hætti hvaða reglur gildi um þau atriði sem tilgreind eru hér að framan og önnur sem máli skipta og hvaða brotalamir séu þar á. Jafnframt geri hann tillögur um breytingar á þeim reglum sem settar hafa verið sem nauðsynlegar eru til að tryggja það að hagsmunir innlendra aðila sem starfa á þessum vettvangi séu ekki fyrir borð bornir og þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að farið sé að gildandi reglum.

———-

Erindi þessu var vel tekið af öllum aðilum og fimmtudaginn 28 júní boðaði forstjóri Vinnumálastofnunar þá sem minnisblaðið fengu ásamt undirrituðum til fundar um málið. Á fundinum voru fyrst kynntar breytingar sem gerðar voru í þinglok á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007, með síðari breytingum. Í þeim lögum er að finna mikilsverða breytingar sem geta ef vel tekst til með framkvæmd orðið grundvöllur að miklum úrbótum. Í lögum þessum er skyldur erlendra fyrirtækja og einstaklinga sem ætla að starfa hér á landi til að skrá starfsemi sína auknar og skýrðar auk þess sem að ítrekaðar eru og skýrðrar skyldur þessara aðila til að tryggja að kjör starfsmanna þeirra samræmist íslenskum reglum og kjarasamningum.

Ástæða er einnig til að vekja athygli á breytingum, sem gerðar voru, á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017 (leyfisskyldir farþegaflutningar) þar sem kveðið er á um heimild til notkunar á bifreiðum fyrir færri en 9 farþega í ferðaþjónustu og um skráningarskyldu þeirra sem slíkra, sem einnig felur í sér kröfu um aukin akstursréttindi. Ennfremur voru samþykkt ný lög um Ferðamálastofu, (http://www.althingi.is/altext/148/s/1294.html), en af orðum Ferðamálastjóra mátti ráða að óljóst er um þýðingu þeirra fyrir þessar nauðsynlegu umbætur í starfsumhverfi ferðaþjónustunnar.

Auk kynningar á lögunum var á fundinum rætt um framhald málsins m.a. nauðsyn á að kynna og gera gildandi reglur á þessu sviði aðgengilegar innlendum sem erlendum aðilum. Í því efni kom fram að hugsanlegt væri að taka saman stutt yfirlit yfir þær og mætti byrja á því að hver þessara fjögurra eftirlitsstofnana tæki saman helstu grunnreglur sem gilda á vettvangi hennar og varða starfsemi erlendra aðila hér á landi. Einnig var rætt um nauðsyn á miðlun upplýsinga um starfsemi erlendra aðila á milli þessara stofnana og nauðsyn á virku vinnustaðaeftirliti en eftirlitsheimildir VMST eru mjög auknar í hinum nýju lögum.

Fundur þessi var með ágætum og undirtektir þeirra sem hann sátu vekja réttmætar vonir um að vilji sé til úrbóta en hvort af þeim verður ræðst af gerðum en ekki orðum. Ljóst er að leiðsögumenn þurfa að halda vöku sinni og fylgjast náið með framvindu mála á þessum vettvangi og vera óþreytandi við að vekja athygli á óeðlilegri starfsemi í ferðaþjónustu.

Indriði H. Þorláksson formaður Leiðsagnar

Lesa meira »

Viðburðadagatal