Reglugerð Sjúkrasjóðs Leiðsagnar
-
1. gr. Nafn sjóðsins og heimili
1.1 Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður Leiðsagnar - stéttarfélags leiðsögumanna.
1.2 Sjóðurinn er eign Leiðsagnar og er heimili hans á skrifstofu félagsins.
2. gr. Verkefni sjóðsins
2.1 Verkefni sjóðsins er að veita sjóðsfélögum fjárhagsaðstoð í veikinda-, slysa- og dánartilvikum. Sjóðsfélagar eru þeir sem greitt hafa, eða fyrir þá hafa verið greidd, iðgjöld til sjóðsins.
2.2 Verkefni sjóðsins er ennfremur að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum sem snerta öryggi og heilsufar.
3. gr. Tekjur
3.1 Tekjur sjóðsins skv. kjarasamningum félagsins sbr. 7. gr. laga nr. 19/1979, samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins, eru 1.25% af launum.
3.2. Vaxtatekjur og annar arður.
3.3 Gjafir, framlög og styrkir.
3.4 Aðrar tekjur sem aðalfundur félagsins/sjóðsins kann að ákveða hverju sinni.
4. gr. Stjórn og rekstur
4.1 Stjórn sjóðsins er stjórn Leiðsagnar og ber stjórnin ábyrgð á öllum fjárreiðum sjóðsins. Heimilt er stjórn sjóðsins að skipa tveggja manna úthlutunarnefnd sér til ráðuneytis.
4.2 Stjórnun sjóðsins skal vera í samræmi við þau sjónarmið sem gilda skv. almennum stjórnsýslureglum.
4.3 Heimilt er að fela skrifstofu Leiðsagnar eða öðrum aðila fjárreiður og umsjón með sjóðnum en halda skal halda bókhaldi sjóðsins aðskildu frá öðrum fjárreiðum Leiðsagnar. Stjórn Leiðsagnar ber ábyrgð á eignum og skuldbindingum sjóðsins en heimilt er stjórninni að fá utanaðkomandi aðila.
4.4. Stjórn sjóðsins skal gæta þess að höfuðstóll sjóðsins fari aldrei niður fyrir 60 milljónir króna.
4.5 Ávallt skulu liggja fyrir gögn um rétt einstaklings til greiðslu úr sjóðnum.
5. gr. Bókhald, reikningar og endurskoðun
5.1 Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af félagslegum skoðunarmönnum og löggiltum endurskoðanda fyrir aðalfund Leiðsagnar.
5.2 Endurskoðun ber að framkvæma af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi í samræmi við góða endurskoðunarvenju sem í gildi er á hverjum tíma.
5.3 Í ársreikningi eða skýringum með honum skal sundurliða sérstaklega kostnað vegna hvers og eins bótaflokks skv. 12.gr.
5.4 Um bókhald, reikninga og endurskoðun fer að öðru leyti skv. viðmiðunarreglum um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda sbr. 3.mgr. 40.gr. laga ASÍ eins og þær reglur eru á hverjum tíma.
6. gr. Úttekt óháðra eftirlitsaðila
6.1 Ár hvert, eigi síðar en 31. maí, skulu endurskoðaðir ársreikningar sjóðsins sendir skrifstofu ASÍ.
6.2 Fimmta hvert ár að minnsta kosti skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína. Stjórn sjóðsins skal senda miðstjórn ASÍ úttekt þessa með ársreikningi sjóðsins.
6.3 Við mat á framtíðarstöðu sjóðsins skal tilgreina rekstrarkostnað, ávöxtun sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Sérstaka grein skal gera fyrir áhrifum á afkomu sjóðsins vegna ákvarðana skv. greinum 12.3 og 12.4.
6.4 Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar skv. niðurstöðu úttektarinnar ber stjórn sjóðsins að leggja fyrir aðalfund tillögu að breytingu á reglugerð sem tryggir að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.
7. gr. Ávöxtun sjóðsins
7.1 Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti;
a) í ríkisskuldabréfum eða skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs,
b) með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum,
c) í bönkum eða sparisjóðum,
d) í fasteignum tengdum starfsemi sjóðsins,
e) á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan sbr. 11.gr. viðmiðunarreglna um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda eins og þær eru á hverjum tíma sbr. 40.gr. laga ASÍ.
8. gr. Ráðstöfun fjármuna
8.1 a) Ávallt skal þess gætt að ráðstöfun fjármuna sjóðsins brjóti ekki í bága við tilgang hans eða verkefni.
b) Þegar um er að ræða ráðstöfun fjármuna til verkefna sem ekki falla undir megintilgang sjóðsins með beinum hætti skal tryggt að um eðlilega ávöxtun þess fjármagns sé að ræða, sbr. a, b og c lið greinar 7.1.
8.2. Engar greiðslur eru heimilar af fé sjóðsins aðrar en þær sem getið er um í 12.gr. svo og rekstrarkostnaður.
9. gr. Grundvöllur styrkveitinga úr sjúkrasjóði
9.1 Rétt til styrkveitinga úr sjóðnum eiga þeir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum, sbr. þó 10. gr.
9.2 Einungis þeir sem greiða stéttarfélagsgjald til Leiðsagnar,
9.3 Einungis þeir sem sannanlega greiða eða er greitt af til sjóðsins og verið er að greiða fyrir til sjóðsins þegar réttur til aðstoðar myndast og sótt er um og greidd hafa verið fyrir 1.25% iðgjöld af launum til sjóðsins í a.m.k. 6 mánuði á síðast liðnum 18 mánuðum.
9.4 Hafi umsækjandi verið fullgildur aðili í sjúkrasjóði annars félags innan ASÍ þar til hann byrjar greiðslu til sjóðsins, sbr. 10. gr.
9.5 Hafi iðgjöld til sjúkrasjóðs ekki verið greidd vegna sjóðfélaga, en hann getur fært sönnur á, að félagsgjöld til viðkomandi aðildarfélags hafi samkvæmt reglulega útgefnum launaseðlum verið dregin af launum hans síðustu 6 mánuði, skal hann njóta réttar eins og iðgjöld til sjúkrasjóðs hafi verið greidd.
10. gr. Samskipti sjúkrasjóða
10.1 Sá sem öðlast hefur rétt til greiðslu sjúkra- og slysadagpeninga úr sjúkrasjóði eins verkalýðsfélags, öðlast þann rétt hjá nýjum sjóði skv. þeim reglum sem þar gilda eftir að hafa greitt í þann sjóð í einn mánuð, enda hafi hann fram að því átt rétt hjá fyrri sjóðnum.
10.2 Vinni maður á fleiri en einum vinnustað og hafi verið greitt í fleiri en einn sjúkrasjóð þegar sótt er um greiðslu, skal umsækjandi greina frá því í hvaða sjóði hann hefur greitt og er heimilt að fresta greiðslu bóta þangað til fyrir liggur staðfesting annarra sjóða á því að umsækjandi hafi ekki sótt um greiðslur þaðan. Sjúkrasjóðurinn skal leita slíkrar staðfestingar og gefa síðan öðrum sjóðum yfirlit yfir þær bætur sem greiddar eru vegna umsækjandans, tegund og fjárhæð bóta.
11. gr. Geymd réttindi
11. 1 Heimilt er að veita þeim sem gengst undir starfsþjálfun, sækir námskeið eða stundar nám í allt að 24 mánuði og hefur síðan aftur störf á samningssviði aðildarfélaga ASÍ, endurnýjaðan bótarétt þegar greitt hefur verið til sjóðsins í einn mánuð, hafi umsækjandi áður verið fullgildur sjóðfélagi. Sama gildir um þá sem hverfa frá vinnu vegna veikinda eða af heimilisástæðum.
11.2 Þeir sjóðfélagar sem fara í lögbundið fæðingarorlof halda áunnum réttindum sínum hefji þeir þegar að loknu fæðingarorlofi aftur störf á samningssviði aðildarfélaga ASÍ enda ákveði viðkomandi að viðhalda rétti sínum með greiðslu félagsgjalds í fæðingarorlofi.
12. gr. Styrkveitingar
12.1 Dagpeningar í veikinda- og slysaforföllum í 120 daga (4 mánuði), að loknum greiðslum skv. veikinda- og slysaréttarákvæðum kjarasamninga. Dagpeningar skulu að viðbættum bótum almannatrygginga, greiðslum úr slysatryggingu launafólks eða annarri lögbundinni tryggingu, ekki nema lægri fjárhæð en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 12 mánuðum.
12.2 Dagpeninga í 90 daga (3 mánuði), að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 12 mánuðum. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar.
12.3 Dagpeninga í 90 daga (3 mánuði) vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 12 mánuðum.
12.4 Eingreiddar dánarbætur við andlát virks og greiðandi sjóðfélaga sem nemi 266.700.- krónum m.v. starfshlutfall hans. Rétthafar bóta eru maki sjóðfélaga og börn hans undir 18 ára aldri. Láti sjóðfélagi hvorki eftir sig maka né barn undir 18 ára aldri gangi fjárhæðin til dánarbúsins. Bótafjárhæð miðast við launavísitölu pr. 31.12 2012 sem er 437,7 stig og tekur sömu breytingum og hún.
12.5 Daga fjölda greiddra dagpeninga skv. 12.1 lið, til þeirra sem greitt er hlutfallslega lægra iðgjald af en 1.25%, er heimilt að skerða í sama hlutfalli og iðgjaldið er lægra en 1.25%.
12.6 Heimilt er að ákveða hámark dagpeninga skv. 12.1, 12.2 og 12.3 sem þó sé ekki lægra en 250.000.- á mánuði.
12.7 Réttur skv. 12.1, 12.2 og 12.3 endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreislum líkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju.
12.8 Sjúkrasjóði er heimilt að taka þátt í eftirfarandi kostnaði
a) Líkamsrækt:
Endurgreiddur er kostnaður vegna heilsueflandi líkamsræktar, að hámarki kr. 40.000 á hverju almanaksári. Einungis er greitt fyrir líkamsrækt sjóðsfélaga sjálfs.
b) Sjúkrameðferðir:
Endurgreiddur er kostnaður vegna meðferða og/eða heilbrigðisþjónustu samanlagt að hámarki kr. 57.000 á hverju almanaksári fyrir eftirfarandi:
• Sjúkraþjálfun.
• Iðjuþjálfun.
• Sjúkranudd.
• Meðferð hjá kírópraktor.
• Sálfræðiþjónustu.
• Hjúkrunarmeðferð.
• Félagsráðgjöf.
• Stoðtækjaþjónustu.
• Göngugreiningu.
Meðferðin þarf að vera samkvæmt læknisráði. Meðferðaraðili skal hafa starfsleyfi frá landlækni og meðferð falla undir löggildingu viðkomandi starfsstéttar.
c) Krabbameinsleit og hjartavernd:
Endurgreiddur er kostnaður að hámarki kr. 23.000 á hverju almanaksári fyrir krabbameinsleit.
d) Hjartavernd
Endurgreiddur er kostnaður að hámarki kr. 23.000 á hverju almanaksári fyrir áhættumat vegna hjartasjúkdóma.
e) Dvöl á heilsustofnun
Endurgreiddur er kostnaður vegna dvalar til endurhæfingar að læknisráði hjá viðurkenndri heilsustofnun innanlands. Hámarksgreiðsla er kr. 57.000 á þriggja ára fresti.
f) Gleraugu og augnaðgerðir
Endurgreiddur er einu sinni kostnaður vegna laseraðgerða á öðru auga kr. 52.000 eða kr. 104.000 á báðum augum.
Endurgreiddur er kostnaður vegna linsu- eða gleraugnakaupa (glerjum og umgjörð) að hámarki kr. 52.000 einu sinni á þriggja ára fresti.
Ekki er endurgreitt fyrir laseraðgerðir og gleraugu hjá sama sjóðsfélaga á sama almanaksári.
g) Heyrnartæki
Endurgreiddur er kostnaður vegna kaupa á heyrnartækjum að hámarki kr. 52.000 einu sinni á þriggja ára fresti.
h) Tannviðgerðir
Endurgreiddur er kostnaður vegna tannviðgerða sem nemur 40% af heildarkostnaði sé hann hærri en kr. 90.000 á hverja umsókn. Endurgreiðsla er kr. 70.000 að hámarki á hverju almanaksári. Reikningar mega vera allt að 12 mánaða gamlir miðað við umsóknardag. Einungis er tekið er þátt í þessum kostnaði hjá sama sjóðsfélaga á þriggja ára fresti.
12.9 Fjárhæðir skv. grein 12.8 skulu endurskoðaðar árlega í byrjun hvers ára og breytt í samræmi við hlutfallslega hækkun mánaðarlauna í almennum launaflokki faglærðra leiðsögumanna, nú 4. launaflokki. Yfirlit yfir styrkfjárhæðir skulu birtar á heimasíðu félagsins.
12.10 Styrkir til stofnana og félagasamtaka skulu ákveðnir af stjórn sjóðsins hverju sinni skv. gr. 2.2.
12.11 Við ráðstöfun fjármuna skv. 12.8 og 12.9 skal þess gætt að möguleiki sjóðsins til að standa við upphaflegar skuldbindingar sínar vegna sjúkdóma og slysa skerðist ekki. Í reglulegri úttekt á afkomu sjóðsins, skv. 6. gr., skal úttektaraðili skoða þennan þátt sérstaklega.
12.12 Slysadagpeningar skv. grein þessari greiðast ekki vegna bótaskyldra slysa og atvinnusjúkdóma, þ.m.t. bifreiðaslysa, þar sem bætur greiðast skv. skaðabótalögum.
13. gr. Lausn frá greiðsluskyldu
13.1 Ef farsóttir geisa getur sjóðsstjórn leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Einnig getur sjóðsstjórn ákveðið að lækka um stundarsakir upphæð dagpeninga ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.
14. gr. Tilhögun greiðslna úr sjóðnum
14.1 Afgreiðsla sjóðsins skal vera á skrifstofu Leiðsagnar og greiðir sjóðurinn allan kostnað sem af rekstri hans leiðir.
14.2 Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um fyrirkomulag á greiðslur úr sjóðnum og aðra starfstilhögun.
14.3 Stjórn sjóðsins og starfsmenn hans skulu hafa að leiðarljósi almennar stjórnsýslureglur um meðferð upplýsinga um umsóknir og afgreiðslu sjóðsins.
14.4 Umsækjandi um greiðslu úr sjóðnum skal leggja fram tilskilin gögn er styðji kröfu hans og veita upplýsingar um tildrög bótakröfu þ.á.m. læknisvottorð. Stjórn sjóðsins getur krafist þess að umsækjandi leggi fram vottorð frá sérstökum trúnaðarlækni sjóðsins.
15.gr. Fyrning bótaréttar
15.1 Umsóknir skulu berast stjórn sjóðsins eigi síðar en 2 vikum eftir að til bótakröfu stofnaðist að viðlögðum kröfumissi.
15.2 Stjórn sjóðsins er heimilt að falla frá ákvæðum gr. 15.1. ef eðlilegar ástæðu hafa komið í veg fyrir að umsókn bærist innan tilskilins frests.
16. gr. Endurgreiðsla iðgjalda
16.1 Iðgjöld til sjóðsins endurgreiðast ekki.
17. gr. Upplýsingaskylda
17.1 Stjórn sjóðsins er skylt að upplýsa sjóðsfélaga um rétt þeirra til aðstoðar sjóðsins á aðgengilegan hátt m.a. með útgáfu bæklinga, dreifirita og/eða á heimasíðu félagsins.
18. gr. Breyting á fjárhæðum og styrkjum
18.1 Stjórn sjóðsins skal leggja fyrir aðalfund breytingar á almennum reglum um fjárhæðir styrkja sem sjóðurinn greiðir.
19. gr. Breytingar á reglugerðinni
19.1 Breytingar á reglugerðinni verða aðeins gerðar á aðalfundi og þurfa þær að vera samþykktar með 2/3 hluta greiddra atkvæða fundarins. Slíkrar tillögu skal getið í fundarboði.
19.2 Breytingar á reglugerðinni skulu sendar skrifstofu ASÍ þegar og þær hafa verið samþykktar á aðalfundi.
Þannig samþykkt á framhaldsaðalfundi Félags leiðsögumanna þann 12. apríl 2018.