Leiðsögn
Kringlan 7, 103 Reykjavík
Kt. 510772-0249
Opið /Open
08:30 -16:00, mán.- fim.
08:30 -16:00, Mon. - Thur.
08:30 -15:00, föstudögum
08:30 -15:00, friday
Sími / Tel
+354 588 8670
Í aðsendri grein í Vísi þann 11. febrúar 2025 eru settar fram fullyrðingar um undirbúning sameiningar við VR, sem hljóta að vera gegn betri vitund þeirra sem það skrifa. Inntak greinarinnar er að öll viðleitni varðandi sameiningu við annað félag sé skemmdarverk.
Höfundar greinarinnar voru viðstaddir kynningarfund um viðfangsefnið þann 4. febrúar s.l. og komu á framfæri sínum spurningum þar. Samt virðist sem svo að þau hafi ekki skilið sem þar fór fram.
Í upphafi kynningarfundarins var tekið skýrt fram að um væri að ræða „drög að samrunasamningi við VR“ sem í endanlegu formi yrði borin undir félagsmenn í atkvæðagreiðslu.
Frá upphafi hefur þetta legið fyrir. Engin leið er að misskilja ferlið nema þá viljandi sé.
Stjórn og trúnaðarráð Leiðsagnar tók þá ákvörðun sumarið 2024 að best væri að fela VR umsjón með starfsemi skrifstofu félagsins í ljósi þess að félagið hafði alls ekki burði til að sinna lögbundnum viðfangsefnum við eftirfylgni kjarasamninga fyrir félagsmenn.
Sú ákvörðun var tekin með samþykki yfirgnæfandi meirihluta á fundum þessara tveggja stofnana félagsins.
Samkvæmt félagslögum eru sjóðir félagsins eign þess og um þá eru sérstakar reglugerðir. Þar og í félagslögum kemur fram hlutverk stjórnar félagsins hvað snertir sjóðina. Hlutverk þeirra sem valdir hafa verið til að fara yfir umsóknir um styrki úr sjóðunum er einungis að greiða út styrki í samræmi við reglur – en alls ekki að hafa áhrif á rekstur eða stjórnun Leiðsagnar.
Samráð á öllum stigum
Þær getsakir, sem fram koma í umræddri grein um ætlun stjórnar eða trúnaðarráðs, eru ekki annað en skáldskapur greinarhöfunda.
Fullyrðing um að búið sé að undirrita samning um inngöngu í VR er röng og lýsir fullkomnu þekkingarleysi á undirbúningi og framkvæmd slíks gjörnings.
Á öllum stigum umræðunnar um sameiningu hefur verið skýrt af hálfu stjórnar og trúnaðarráðs að samráð yrði haft um drög að samrunasamningi og það var margítrekað á kynningarfundinum með félagsmönnum þann 4. febrúar s.l. Þar var jafnframt áréttað að aftur yrðu þessi drög til umræðu á félagsfundi þann 12. febrúar og að annar fundur um sameiningarmálið yrði fyrir lok febrúar. Skortur á samráði stenst því enga skoðun.
Samkomulagið sem greinarhöfundar vísa til, sem stendur þar til eða ef að sameiningu verður, snerist um að fela VR að sjá um starfsemi skrifstofu félagsins. Sem, eins og áður hefur komið fram, hafði ekki burði til að sinna lögbundnum verkefnum. Það fyrirkomulag hefur skilað félagsmönnum Leiðsagnar sem aðstoðar leituðu verulegum fjárhagslegum ávinningi, eins og kom fram á kynningarfundinum 4. febrúar.
Samþykkt aðalfundar 2024
Sú fullyrðing að tillaga um sameiningu við annað félag, sem afgreidd var á aðalfundi Leiðsagnar vorið 2024, hafi ekki verið bindandi stenst ekki heldur skoðun. Tillagan var samþykkt af öllum aðalfundargestum að einum undanskyldum. Skýr vilji og umboð til stjórnar lá því fyrir. Að halda því fram að þessi samþykkt hafi ekki verið bindandi fyrir stjórn og trúnaðarráð er einfaldlega rangt.
Stjórn og trúnaðarráð fyldu eftir afgerandi ákvörðun aðalfundar oglögðu í vinnu við að skoða valkosti við sameiningu við önnur félög. VR var eina félagið sem sýndi raunverulegan áhuga. Þar með var tekin sú ákvörðun að vinna að undirbúningi samruna, í samráði við félagsmenn.
Endanleg útgáfa að samningi um slíkt yrði lögð fyrir félagsmenn þar sem þeir greiddu atkvæði um málið. Hér þarf að hafa í huga að slíkur samningur er ekki einhliða mál Leiðsagnar heldur þarf að taka tillit til skipulags VR og skoða hvernig leiðsögumenn geta passað þar inn.
Sá ferill er búinn að vera í gangi í vetur og fyrsta opinbera kynning á stöðu þess verks fór fram 4. febrúar s.l.
Það er mál að linni
Sú fullyrðing að því hafi verið hafnað að boða til félagsfundar er röng. Greinin birtist degi fyrir boðaðan félagsfund.
Þau skrif sem að ofan er vísað til eru það nýjasta í langri röð sambærilegra skrifa og innleggs í fundi í Leiðsögn af hálfu greinarhöfunda. Einkenni þeirra eru ávallt þau sömu; uppdiktaðar forsendur og útlistun á þeim. Klögumál til lögmanns ASÍ, sem er löngu búinn að fá yfir sig nóg af því að þurfa að fást við slík mál.
Engum er til framdráttar að velta vöngum yfir þessari vegferð greinarhöfunda og því verður það ekki gert hér. Þeir verða að eiga sína afstöðu við sig, sama hve undarleg hún er og hve marglaga rangfærslurnar eru.
Framundan er vinna við að fínpússa frekar fyrirliggjandi drög að samrunasamingi. Fjalla um hann á tveimur fundum – félagsfundi 12. febrúar og svo á öðrum kynningarfundi fyrir lok febrúar. Síðan verða þau drög lögð fyrir dóm félagsmanna í atkvæðagreiðslu.
Félagar í Leiðsögn eiga skilið að fá að fjalla um þetta mikilvæga mál af yfirvegun og kaldri skynsemi en ekki með upphrópunum og rangfærslum.
Reykjavík 12 Feb 2025
Halldór Kobleins
formaður stjórnar leiðsagnar
Þessi vefsíða notar vafrakökur, með því að heimsækja vefsíðu okkar samþykkir þú notkun á vafrakökum. Sjá nánar.