17
Mars

Þríhliða samkomulag Ríkisstjórnar Íslands, ASÍ og atvinnulífsins

Samkomulag um aðgerðir

Ríkisstjórn Íslands, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa náð þríhliða samkomulagi um aðgerðir til þess að hægja á útbreiðslu COVID-19 veirunnar hér á landi með því að tryggja að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Mikill fjöldi launafólks hefur að tilmælum yfirvalda farið í sóttkví sem felur það í sér að það getur ekki sótt vinnu auk þess sem öll samskipti eru takmörkuð. Slíkt felur í sér mikla röskun á högum og daglegu lífi. Miklir samfélagslegir hagsmunir eru fólgnir í því að sóttkví sé haldin og hægt á útbreiðslu veirunnar. Af þeim ástæðum verður að tryggja að það launafólk sem sætir sóttkví  þurfi ekki að óttast um afkomu sína meðan á henni stendur.

Aðilar hafa því orðið ásáttir um eftirfarandi:

Samtök atvinnulífsins munu beina þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til einstaklinga sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.

Alþýðusamband Íslands mun beina þeim tilmælum til aðildarsamtaka sinna að sjóðfélagar í sjúkrasjóðum þeirra sem sýkjast njóti óskertra greiðslna úr sjóðunum að tæmdum veikindarétti.

Stjórnvöld munu beita sér fyrir að breytingar verði gerðar á lögum um sjúkratryggingar í þá veru að atvinnurekendi, sem greiðir launamanni sem sætt hefur eða mun sæta sóttkví laun, geti krafið sjúkratryggingar um endurgreiðslu kostnaðar að ákveðnu hámarki séu tilteknar aðstæður fyrir hendi eins og til dæmis að launamaður geti ekki sinnt vinnu heiman frá sér. Unnið verði að útfærslu á þeirri aðkomu stjórnvalda og gildistíma og stefnt verði að því að þeirri vinnu verði lokið 13. mars.

Meðan á sóttkví stendur reynir ekki á veikindarétt almenns launafólks, frekar en opinberra starfsmanna, en sjúkrasjóðirnir þurfa að vera reiðubúnir til að taka við þeim sem veikjast og tæma veikindarétt sinn af þeim ástæðum.

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image