02
Apríl

Ráðningarréttindi leiðsögumanna

Ráðningarréttindi leiðsögumanna

Leiðsögn – stéttarfélag leiðsögumanna - hefur fengið upplýsingar þess efnis að leiðsögumönnum með ótímabundna ráðningu hafi verið sagt upp störfum án þess að hafa verið boðið hlutastarf skv. nýsamþykktum lögum. Hvetur Leiðsögn þá til að gæta réttar síns í þessum efnum og fara þess á leit við vinnuveitanda sinn að fá ráðningu í hlutastarf með þeim réttindum sem hún veitir.

Þá hefur leiðsögumönnum sem starfað hafa samfellt árum saman hjá sama aðila skv. svokallaðri ferðaráðningu verið sagt upp störfum eða áður áætluð verkefni þeirra felld niður án þess að þeir njóti uppsagnarréttar og uppsagnarfrests. Með þessu eru þeir ekki aðeins sviptir launum en einnig útilokaðir frá því að geta notið hlutastarfsbóta skv. ný samþykktum lögum.

Leiðsögn telur að um þessi störf gildi lög nr. 19/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna að því er varðar þá sem uppfylla skilyrði laganna. Í 4.gr. þessara laga segir „Starfsmaður með tímabundna ráðningu skal hvorki njóta hlutfallslega lakari starfskjara né sæta lakari meðferð en sambærilegur starfmaður með ótímabunda ráðningu að þeirri áðstæðu einni að hann er ráðinn tímabundið nema það sé réttlætanlegt á grundvelli hlutlægra ástæðna.” 

Fjöldi „ferðaráðinna”  leiðsögumanna uppfyllir þau skilyrði sem lögin setja þ.e. að hafa starfað hjá sama fyrirtæki í tvö ár eða lengur samfellt með eðlilegum hléum. Þessir leiðsögumenn eiga lögum samkvæmt sama rétt á launuðum uppsagnarfresti og þeir fastráðnir eru og þar af leiðandi einnig rétt á samningi um skert starfshlutfall og hlutabætur. Vanræksla á því að ganga formlega frá ótímabundnum samning, sbr. 5. gr. laganna getur ekki orðið til þess að skerða ótvíræðan rétt starfsmannsins skv. 4. gr. þeirra.

Leiðsögn hefur beint því til launagreiðenda leiðsögumanna að þeir láti ferðaráðna leiðsögumenn njóta þess réttar sem þeim ber samkvæmt tilvitnuðum lögum og vonar að þeir verði við þeirri ósk með því að leiðsögumaður sem uppfyllir skilyrði laganna fái annað hvort a) uppsagnarfrest á launum í samræmi við það sem gildir um fastráðna starfsmenn eða b) við hann gerður ótímabundinn samningur um hlutastarf.

Að gefnu tilefni skal bent á að óheimilt er að segja manni upp störfum og semja við hann um hlutastarf í uppsagnarfrestinum. Til þess að fá bætur frá VMST vegna minnkunar starfshlutfalls verður að vera í gildi ótímabundinn ráðningarsamningur.

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image