×

Warning

JUser: :_load: Unable to load user with ID: 1411998
08
Nóv

Fréttamolar frá formanni


Kæra leiðsögufólk. 

Það eru sérkennilegir tímar hjá okkur í Leiðsögn eins og þið vitið öll. Stjórn félagsins og fleiri leggja sig fram við að vinna að hag félagsmanna og halda uppi merki stéttarinnar þótt lítið sé umleikis í ferðaþjónustunni um þessar mundir. Þeim mun mikilvægara er að nýta tímann vel og vinna okkur í haginn þar til ferðamenn fara að streyma hingað til lands aftur. Enginn veit hvenær það verður en vonandi verður þess ekki langt að bíða. Hér á eftir eru nokkur atriði sem unnið hefur verið að undanfarið, ykkur til fróðleiks.

Kjaranefnd. Hún var kosin á fundi Trúnaðarráðs þann 8. september. Hana skipa Jakob S. Jónsson, Valva Árnadóttir, Guðný Margrét Emilsdóttir, Stefán Arngrímsson og Pétur Gunnarsson. Kjaranefnd kaus sér Jakob S. Jónsson sem formann.

Fundur ráðherra ferðamála, Þórdísar Kolbrúnu R. Gylfadóttur og fulltrúa Leiðsagnar, stéttarfélags leiðsögumanna, fimmtudaginn 17.9.2020.
Fyrir hönd Leiðsagnar mættu Pétur Gauti Valgeirsson, formaður, Friðrik Rafnsson, ritari og Jakob S. Jónsson sem situr í fagráði, kjaranefnd og trúnaðarráði.
Leiðsögumenn hafa lengi unnið að því að fá lögvernd á starfsheiti sitt og skapa betri umgjörð um starf sitt. Í þessu samhengi erum við að tala um leiðsögn í atvinnuskyni (gegn gjaldi).  Hér á landi eru ýmis séríslensk vandamál og aðstæður, sem tengjast helst óblíðu og síbreytilegu veðurfari og viðkvæmri náttúru, en einnig sögu og menningu okkar. Leiðsögumenn eru sérfróðir í þessu og hafa fengið menntun og þjálfun í að miðla þessu til erlendra gesta okkar.
Núna eru mjög sérstakar aðstæður í samfélaginu, sérstaklega í ferðaþjónustunni. En í því felast einnig tækifæri. Við getum notað þetta óvænta hlé til endurskipuleggja okkur og hafa áhrif á þróun ferðaþjónustu á Íslandi. Það er mikil hætta á atgervisflótta úr stéttinni og á að mikil þekking og reynsla tapist. Við teljum að besta leiðin til að taka á því sé að hækka menntunarstig. Þannig aukum við gæði, öryggi og tryggjum hag neytenda betur. Þannig verndum við líka náttúru Íslands og ímynd landsins. Leiðsögumenn tryggja ekki bara aðeins öryggi þeirra ferðamanna sem eru í hóp með þeim, heldur líka þeirra sem eru á sama svæði. Þetta á jafnt við umferðaröryggi sem og náttúruvá.
Leiðsögn hefur verið í samstarfi við SAF síðastliðið ár við að styrkja faglega leiðsögn á Íslandi og styrkja formlega starf leiðsögumanna, í samræmi við bókun í kjarasamningi frá júní 2019. Þar er einnig talað um að beita sér gegn félagslegum undirboðum, vernda samkeppnisaðstöðu íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja og leiðsögumanna.
Í framhaldi af þessum fundi varð ráðuneytið að ósk Leiðsagnar um að setja á laggirnar samstarfsnefnd um þetta verkefni. Auk eins fulltrúa Leiðsagnar sitja í nefndinni fulltrúar Ferðamálastofu, Hæfnisseturs ferðaþjónustunnar, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Samtaka ferðaþjónustunnar og auðlinda- og umhverfisráðuneytis, einn frá hverjum aðila. Frumiðurstöðum skal skilað eigi síðar en 15. janúar 2021 og lokaskýrslu 15. mars. Samþykkt var á stjórnarfundi Leiðsagnar að tilnefna Jakob S. Jónsson fulltrúa Leiðsagnar í nefndina. Hann situr í trúnaðar- og fagráði og kjaranefndi og þekkir þennan málaflokk vel. Afrakstur þessarar vinnu verður kynntur þegar tilefni þykir til og verður haldinn sérstakur félagsfundur um efnið þegar lokaskýrsla liggur fyrir.

Framlenging tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Þrátt fyrir að allir viðurkenni mikilvægi leiðsögumanna í ferðaþjónustunni hafa þeir notið takmarkaðs skilnings hjá yfirvöldum undanfarna mánuði, þeir hafa lent illa í áhrifum af COVID19 og fallið milli skips og bryggju í ýmsum annars ágætum björgunaraðgerðum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir.
Margir leiðsögumenn sóttu um bætur og fóru á atvinnuleysisbætur í lok mars eða snemma í apríl og því rann þriggja mánaða tekjutenging þeirra á atvinnuleysisbótum út í júní eða júlí sem þýðir að þeir voru ekki lengur á tekjutengingu núna í byrjun september.
Fjölmargar fyrirspurnir hafa borist Leiðsögn undrar fólk sig á þessari stöðu. Getur það staðist að það fólk, Leiðsögumenn, sem lenti í verstu hremmingunum í vor og passaði ekki inn í hlutabótaleiðina falli enn einu sinni í gegnum möskvana á björgunarnetinu, einungis vegna þess að það er miðað við 1. september?
Þetta er augljós galli á kerfinu. Þetta veldur því að fólk sem féll milli skips og bryggju í fyrri aðgerðum er enn og aftur að upplifa að þeim er ekki rétt hjálparhönd sem öðrum er rétt, eingöngu vegna þess að þau voru þau fyrstu sem lentu í því að missa lífsviðurværið. Þetta er að mati Leiðsagnar afar ósanngjarnt.
Stjórn Leiðsagnar krefst þess að yfirvöld leiðrétti þetta misrétti. Í því skyni skrifaði formaður bréf til forsætis- og félagsmálaráðherra, grein um efnið var birt í vefritinu Kjarnanum og bíður birtingar í Fréttablaðinu og viðtal var tekið við formann á RÚV. Erindið hefur mætt skilningi á Alþingi og erum við fullviss um að þetta verði lagað.
Nú er í meðferð á Alþingi frumvarp um tekjufallsstyrk. Það hefur tekið miklum breytingum í meðferð Alþingis og nefnda. Upphaflega átti það bara við um einyrkja og örfyrirtæki með færri en 3 starfsmenn en á nú að ná til miklu stærri hóps. Formaður var boðaður á fund á fund Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem fjallaði um þetta frumvarp og kom athugasemdum Leiðsagnar á framfæri, sem voru helst það að óskýrt væri hvað átt væri við með 3 starfsmenn, tekjufall uppá 50% væri of hátt viðmið og að ekki væri samræmi í upphæð styrks við önnur úrræði sem nú þegar væru komin fram (uppsagnarstyrkur og lokunarstyrkur).
Formaður félagsins hefur verið í miklum samskiptum við ASÍ útaf stöðunni og fengið mikla hjálp þaðan. Leiðsögn á fulltrúa í tveimur nýjum nefndum hjá ASÍ, annars vegar um framtíð ferðaþjónustunnar og hins vegar um ótrygg ráðningarsambönd.

Stefnumótun um framtíð ferðaþjónustunnar. Starfshópur var stofnaður í september s.l. að frumkvæði ASÍ um að móta stefnu varðandi ferðaþjónustunnar. Auk Leiðsagnar eiga VSFK, Efling, VR, FFÍ og Matvís fulltrúa í hópnum. Hann hefur hist fimm sinnum fram til þessa og skilar af sér áliti á næstu vikum sem þá verður kynnt meðlimum viðkomandi félaga. Friðrik Rafnsson, ritari í stjórn Leiðsagnar, er fulltrúi félagsins en einnig hefur formaður setið nokkra þeirra.

Skrifstofa á nýjum stað. Við leigjum skrifstofuhúsnæði af VM, en þeir eru að flytja og við þurfum líka að flytja. Nokkrir möguleikar eru í stöðunni og ekki búið að taka endanlega ákvörðun.
Vegna COVID19 er skrifstofan ekki opin en svarað er í síma og tölvupósti.

Fræðsluefndin hefur verið virk og skipulagt framhald af örnámskeiðunum sem voru í vor. Fyrra örnámskeiðinu er nú lokið en það fjallaði um hið merka CarbFix verkefni í tveimur fyrirlestrum og hið seinna verður miðvikudaginn 25. nóvember n.k. og fjallar um „Tökustaðinn Ísland“. Fræðslunefnd er einnig að undirbúa fleiri atburði, ef aðstæður leyfa. Hana skipa Guðný Margrét Emilsdóttir, Júlíus Freyr Theódórsson og Lovísa Birgisdóttir.


Læt þetta nægja að sinni. Framundan er líklega erfiður vetur fyrir okkur öll. Tökumst á við hann af æðruleysi og einurð og höfum hugfast að öll „það styttir alltaf upp og birtir“ eins og þar segir.


Kær kveðja,
Pétur Gauti

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image