×

Warning

JUser: :_load: Unable to load user with ID: 1411998
30
Maí

Skugginn sem á gleðina fellur

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu föstudaginn 28. maí. Fagnaðarfréttir berast úr öllum áttum og bjartsýnin leynir sér ekki. Vonin dylst engum: Ferðaþjónustan er vöknuð, langvarandi atvinnuleysi leiðsögumanna er að breytast í eftirspurn eftir fagmenntuðum leiðsögumönnum.

Þetta eru gleðitímar. Nú stefnum við á það með samtakamætti að þessi jákvæða þróun haldi áfram og að ferðaþjónustan nái sér eftir harðindatíma.

Leiðsögn – stéttarfélag leiðsögumanna hefur notað tímann vel. Félagið hefur tekið þátt í starfshópi, sem skipaður var af ferðamálaráðherra síðastliðið haust, og sem hefur lagt fram tillögur um menntun og þjálfun leiðsögumanna. Tillögurnar, sem starfshópurinn hefur lagt fram eru framsýnar og metnaðarfullar og mesta ánægjuefnið er að allir sem að starfi hópsins komu – Ferðamálastofa, Menntamálaráðuneytið, Umhverfisráðuneytið, SAF – Samtök Aðila í Ferðaþjónustu og Leiðsögn – voru sammála um niðurstöðurnar.

Það eru sannarlega bjartir tímar framundan.

En þá birtast þeir, þessir örfáu, sem koma óorði á hópinn. Niðurrifsmennirnir.

Leiðsögn – stéttarfélag leiðsögumanna hefur haft fregnir af því að nokkur ófyrirleitin fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa einsett sér að láta vonda afkomu síðasta árs bitna á leiðsögumönnum! Þeim hafa verið boðin smánarlaun og til að kóróna ömurleikann er kveðið uppúr með það, að einungis komi til greina að ráða leiðsögumenn í verktöku.

Slík skilyrði eru auðvitað ólögleg. Þessir atvinnurekendur kunna ekki til verka. Þekkja ekki landslög, hunsa kjarasamninga. Þeir eru að biðja um átök á vinnumarkaði.

Hvað finnst nú lesendum að leiðsögumenn eigi að gera? Það er erfitt að hafna vinnu eftir langvarandi atvinnuleysi. Á að samþykkja boð um vinnu, jafnvel þótt kjörin séu verri en kjarasamningar kveða á um? Eiga leiðsögumenn að sniðganga þessa atvinnurekendur og lenda í verri fátæktargildru?

Spurningunum verður að svara: Hvað á að gera? Hvað er hægt að gera?

Pétur Gauti Valgeirsson

Formaður Leiðsagnar – stéttarfélags leiðsögumanna

Jakob S. Jónsson

Formaður Kjaranefndar Leiðsagnar

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image