Leiðsögn
Kringlan 7, 103 Reykjavík
Kt. 510772-0249
Opið /Open
08:30 -16:00, mán.- fim.
08:30 -16:00, Mon. - Thur.
08:30 -15:00, föstudögum
08:30 -15:00, friday
Sími / Tel
+354 588 8670
Eftirfarandi grein eftir Friðrik Rafnsson, formann Leiðsagnar – stéttarfélags leiðsögumanna, birtist í Fréttablaðinu miðvikudaginn 4. ágúst.
Það er táknrænt að leiðsögumaður skuli ævinlega leiða hóp ferðamanna jafnt í þéttbýli sem á fjöllum, sitja fremst í rútum, undir stýri í ökuleiðsögn. Leiðsögumaðurinn er ábyrgur fyrir framkvæmd ferðar eins og hún var seld farþegum, velferð þeirra og öryggi í samvinnu við bílstjóra ef svo ber undir. Í stuttu máli, þá heldur leiðsögumaðurinn einatt um alla þræði ferðarinnar, sér um að allt gangi smurt og að farþegar geti notið landsins okkar góða öryggir og áhyggjulausir.
Það ríkti mikil gleði og tilhlökkun meðal leiðsögumanna þegar ferðamenn gátu aftur farið að streyma til landsins fyrr í sumar, en þá hafði ferðaþjónustan sem kunnugt er verið algerlega lömuð í hálft annað ár vegna Covíð-19. Leiðsögumenn voru svolítið eins og kálfar að vori, rétt eins og farþegarnir, og fögnuðu því mjög að geta aftur farið að vinna og fræða erlendu gestina um íslenska náttúru, sögu og menningu.
Þrátt fyrir frábæran árangur í sóttvörnum og bólusetningu hvíldi samt skuggi veirunnar yfir öllum sem umgengust okkar erlendu gesti og gerir það nú sem aldrei fyrr þegar hún virðist enn og aftur komin í veldisvöxt. Ég leyfi mér að fullyrða að langflest ferðaþjónustufyrirtæki gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir smit farþega og starfsmanna, spritta, nota grímur, hólfaskipta og uppfræða ferðafólkið. Það breytir því ekki að leiðsögumenn eru eðli starfsins samkvæmt í langmestri og nánustu samskiptunum við okkar erlendu gesti og eru þar af leiðandi í stöðugri hættu að smitast. Við það bætist að ráðningasamband leiðsögumanna og ferðaþjónustufyrirtækja er stundum ekki nógu skýrt og veikindaréttur óljós og ég veit dæmi þess að þaulvanir leiðsögumenn hafi afþakkað verkefni af þessum ástæðum. Kæruleysi eða reddingar við núverandi aðstæður er ekki boðlegt.
Endurreisn ferðaþjónustunnar er lykillinn að uppbyggingu efnahagslífisins út um allt land. Við þurfum að gera það faglega en varlega, annars slær í bakseglin. Við höfum mörg tromp á hendi, öryggi, náttúrufegurð, sífellt betri innviði og vel menntað fagfólk. Takist öllum sem í ferðaþjónustunni að spila vel og skynsamlega úr þessari viðkvæmu stöðu verður framtíð ferðaþjónustunnar björt og góð. Ég leyfi mér fyrir hönd íslenskra leiðsögumanna að lofa því að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að svo megi verða.
Þessi vefsíða notar vafrakökur, með því að heimsækja vefsíðu okkar samþykkir þú notkun á vafrakökum. Sjá nánar.