×

Warning

JUser: :_load: Unable to load user with ID: 1411998
08
Sept

Pistill frá formanni

Kæra leiðsögufólk

Eitt af því sem þarf að efla innan Leiðsagnar er aukið upplýsingaflæði. Ég hyggst því senda reglulega pistla til að upplýsa
ykkur um gang mála, en jafnframt er ykkur velkomið að senda fyrirspurnir, kvartanir, hrós eða hvers kyns ábendingar á
formaðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. um hvaðeina sem ykkur liggur á hjarta, og mun ég reyna að svara þeim eftir bestu getu.

Ég vil byrja því að þakka fyrir það traust sem félagsmenn sýndu mér á aðalfundi félagsins 8. júní síðastliðinn þegar ég var
kosinn formaður félagsins. Það var vissulega afar mjótt á mununum, aðeins eitt atkvæði skildi að okkur Óskar Kristjánsson,
mótframbjóðanda minn og fyrrum gjaldkera félagsins. Ég vil þakka honum drengilega umræðu í aðdraganda kosninganna og
vona að við fáum að njóta krafta hans áfram í þágu félagsins.

Nýja stjórnin hefur lent í nokkrum áföllum á þessum fyrstu mánuðum; Júlíus Freyr Theodórsson sagði af sér sökum anna og
var Snorri Steinn Sigurðsson kjörinn varamaður í hans stað. Fyrir rúmum tveimur vikum tilkynnti ritari félagsins, Jakob S.
Jónsson, skyndilega afsögn sína úr stjórn, trúnaðarráði og kjaranefnd, en ákvað síðan að draga hana til baka þar sem ekki
var um neinn málefnalegan ágreining að ræða, og var það samþykkt á fundi stjórnar og trúnaðarráðs í gær, mánudaginn
6.september.

Stjórn stéttarfélagsins er því þannig skipuð nú: Friðrik Rafnsson formaður, Snorri Steinn Sigurðsson varaformaður, Valva
Árnadóttir gjaldkeri, Jakob S. Jónsson ritari og Harpa Björnsdóttir meðstjórnandi. Frá aðalfundi hefur stjórn fundað fimm sinnum
til að ræða og ákveða ýmis mál. Meðal þeirra má nefna skipulag á upprifjunarnámskeiði um skyndihjálp á vegum Rauða
krossins, samning um leigu á nýju skrifstofuhúsnæði að Stórhöfða 29, útgáfu kynningarefnis fyrir nýja leiðsögumenn, kynningu
á leiðsögumannsstarfinu í Verkmenntaskóla Akureyrar og ýmis önnur mál sem koma fram í fundargerðum á vef Leiðsagnar.

Þegar stjórnarskipti áttu sér stað í júní var óvissan um sumarið algjör vegna covid-19, en þegar losað var um hömlur í byrjun
júlí tók ferðaþjónustan snöggan kipp og undanfarna mánuði virðast leiðsögumenn hafa haft nóg að gera, og sumir gott betur
en það, einkum ökuleiðsögumenn. Ég hef heyrt það og séð á ferðum mínum í sumar að leiðsögumenn voru fegnir og glaðir að
geta loks aftur farið að vinna við það sem þeim finnst skemmtilegra og meira gefandi en flest annað. Fljótlega fóru þó að
heyrast þær raddir að smitvarnir í rútum, á veitingastöðum og hótelmóttökum væru ekki alltaf sem skyldi. Til að bregðast við
því skrifaði ég grein í Fréttablaðið miðvikudaginn 4. ágúst undir yfirskriftinni Framlínufólkið í ferðaþjónustunni" þar sem segir
m.a. "Þrátt fyrir frábæran árangur í sóttvörnum og bólusetningu hvíldi samt skuggi veirunnar yfir öllum sem umgengust okkar
erlendu gesti og gerir það nú sem aldrei fyrr þegar hún virðist enn og aftur komin í veldisvöxt. Ég leyfi mér að fullyrða að
langflest ferðaþjónustufyrirtæki gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir smit farþega og starfsmanna; spritta,
nota grímur, hólfaskipta og uppfræða ferðafólkið. Það breytir því ekki að leiðsögumenn eru eðli starfsins samkvæmt í
langmestri og nánustu samskiptunum við okkar erlendu gesti og eru þar af leiðandi í stöðugri hættu að smitast. Við það bætist
að ráðningasamband leiðsögumanna og ferðaþjónustufyrirtækja er stundum ekki nógu skýrt og veikindaréttur óljós og ég veit
dæmi þess að þaulvanir leiðsögumenn hafi afþakkað verkefni af þessum ástæðum. Kæruleysi eða reddingar við núverandi
aðstæður er ekki boðlegt." Nú, rúmum mánuði seinna, er þetta nánast óbreytt. Förum varlega og verum fagleg, það er allra
hagur.

Nokkuð hefur borið á því að erlendir aðilar hafi tekið upp fyrri háttu, rútufyrirtæki hafi að sögn verið með ferðir þar sem
réttindalausir ökuleiðsögumenn hafi verið að störfum og að erlendir hópstjórar hafi gengið í störf íslenskra, faglærðra
leiðsögumanna. Slíkt er ekki boðlegt og mun Leiðsögn þrýsta á að tekið verði á þessu í samvinnu við SA, SAF og þar til bær
yfirvöld.

Nú þegar ferðaþjónustan er (vonandi) að taka verulega við sér hefur Leiðsögn fengið ábendingar um vaxandi áherslu
fyrirtækja að semja við leiðsögumenn um verktöku í stað þess að vera launþegar, og bjóða verktakaálag sem er fjarri því að
standa undir launatengdum greiðslum. Auk þess er þannig ráðningasamband óboðlegt fyrir sérfræðinga eins og leiðsögumenn.
Til að auðvelda leiðsögumönnum að átta sig á því hvað verktaka gefur raunverulega í laun, verður sérhönnuð reiknivél
bráðlega verða sett inn á innri vef félagsins þar sem fólk getur slegið inn ýmsar launaforsendur og séð hvernig það kemur út.
Það mun auðvelda fólki mjög vinnuna og getur orðið mikilvægt hjálpartæki í komandi kjarasamningalotu.

Eins og við vitum er starf leiðsögumannsins afar skemmtilegt og gefandi. En því fylgir líka mikil ábyrgð og það skilar sér ekki
nægilega vel í þeim launum sem við fáum greidd fyrir okkar vinnu.  Til að breyta því þurfum við stöðugt að sinna starfi okkar
af metnaði, fagmennsku og alúð gagnvart farþegunum okkar og tryggja að ferðaþjónustufyrirtækin, vinnuveitendur okkar,
standi sig í stykkinu í hvívetna. Ennfremur þurfum við leiðsögumenn að stilla betur saman strengi, skiptast á skoðunum og
komast að sameiginlegri niðurstöðu sem þokar okkur áfram og upp. Það er sameiginlegur hagur okkar allra.

Reykjavík, 7. september 2021.

Friðrik Rafnsson, formaður Leiðsagnar - stéttarfélags leiðsögumanna

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image