×

Warning

JUser: :_load: Unable to load user with ID: 1411998
09
Okt

Af menningarlæsi leiðsögumanna

Miðvikudaginn 6. október birti Friðrik Rafnsson, formaður Leiðsagnar-stéttarfélags leiðsögumanna, eftirfarandi grein í Fréttablaðinu.

Flestir Íslendingar hafa skiljanlega sjaldan eða aldrei notið þjónustu íslenskra leiðsögumanna hér heima, en hafa væntanlega séð þeim bregða fyrir klædda skrautlegum útivistarfatnaði malandi með hóp túrista á eftir sér á helstu ferðamannastöðum, haldandi á hljóðnema í rútu sem troðfull er af ferðamönnum eða leiðandi hópa fólks um þéttbýli jafnt sem fjöll og firnindi.

Hvernig sem því er háttað er þarna á ferðinni framlínufólkið í ferðaþjónustunni því faglærðir leiðsögumenn, sem aukinheldur að stærstum hluta háskólamenntaðir, eru það fólk sem sér um að framkvæma skipulagðar ferðir og ber einna mesta ábyrgð á því að stór hluti ferðamanna sem hingað koma njóti þess að ferðast um landið öruggir og snúi aftur ánægðir og margs vísari um land og þjóð.

Augu og eyru

Vissulega felst starf okkar leiðsögumanna í að miðla þekkingu á landi okkar, náttúru, sögu og menningu. Halda athygli farþeganna klukkutímum, stundum dögum saman, fræða þá og skemmta þeim enda eru þeir hingað komnir til að njóta lífsins. Þess vegna þarf góður leiðsögumaður að rækta í sér sagnamanninn, þá skemmtilegu íslensku hefð, kunna að segja frá. En hann þarf líka að kunna að „lesa salinn“ eins og leikarar kalla það, skynja væntingar farþeganna og laga sig að þeim. Leiðsögumaður sem fer til dæmis Gullhring með breskar unglingsstúlkur einn daginn og franska eldri borgara næsta dag matreiðir sama fróðleik augljóslega ekki á sama hátt ofan í svo ólíka hópa. Þess vegna eru eyrun ekki síður mikilvæg fyrir góðan leiðsögumann en munnurinn.

Menningarlæsi

Málið flækist enn þegar leiðsögumaður er með fólk af mörgum þjóðernum í sama hópnum. Yfirleitt er þá notast við það tungumál sem flestir sem hingað koma tala að einhverju marki, ensku, en sú kunnátta er stundum ekki burðug meðal allra farþega. Þá skiptir lipurð leiðsögumannsins í mannlegum samskiptum enn meira máli. Og það mætti jafnvel taka þetta enn lengra og segja að þá skipti menningarlæsi leiðsögumannsins höfuðmáli.

Menningarlæsi er flókið hugtak, en í stuttu máli gerir sá eða sú sem er læs á menningu og trúarbrögð annarra sér grein fyrir helstu siðum og venjum sem einkenna hana og virðir það í hvívetna. Annars getur viðkomandi lent í því að særa eða móðga viðkomandi sárlega. Menningarheimar Bandaríkjamanna, Indverja, Japana, Marokkóbúa og Frakka eru til dæmis gerólíkir, borðsiðir og persónumörk mismunandi. Leiðsögumenn verða að kunna skil á þeim og þjóna þeim samkvæmt því og það er ekki alltaf auðvelt, einkum þegar hópar eru blandaðir. Aðferðin sem ég held að flestir leiðsögumenn beiti þegar þeir eru með farþega frá gerólíkum menningarheimum er því sú að feta vandaðan meðalveg í ferðunum og reyna að prjóna við fróðleikinn með einstaka farþegum í stoppum eða þegar færi gefst og tryggja þannig að allir séu ánægðir.

 

Öryggi og gleði á norðurhjara veraldar

Við heimafólkið kippum okkur ekkert upp við það þótt veðrið breytist í sífellu, jörð skjálfi og eldfjöll gjósi. Mörgu ferðafólki sem hingað kemur bregður hins vegar verulega í brún við það eitt að aka í gegnum ógnvekjandi hraunbreiðu í misjöfnu veðri frá Keflavíkurvelli til Reykjavíkur og spyr sig ráðvillt hvert það sé eignlega komið. Er það virkilega komið þangað sem það vildi fara, í ævintýraferð á eldfjalla- og jöklaeyju á hjara veraldar þar sem náttúruöflin eru ógnvekjandi? Þá sem endranær eru faglærðir og vel þjálfaðir leiðsögumenn lykilfólkið í ferðaþjónustunni. Þeir eru brúarsmiðir milli menningarheima, trygging fyrir því að erlendu gestirnir okkar njóti Íslandsferðarinnar í botn, átti sig á því að þótt landið geti verið ógnvekjandi sé það líka fallegt, heillandi og spennandi. Mesta umbun leiðsögumannsins felst því í að hjálpa fólki að höndla þessar gríðarlegu andstæður, njóta þeirra og kveðja það loks örlítið ráðvillt en glatt og stolt yfir að hafa öðlast nýja og óviðjafnanlega lífsreynslu.

Höfundur er formaður Leiðsagnar, stéttarfélags leiðsögumanna

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image