×

Warning

JUser: :_load: Unable to load user with ID: 1411998
28
Okt

Pistill frá formanni

Kæru leiðsögumenn. 

Eftir því sem mér heyrist á leiðsögumönnum sem ég hef hitt og heyrt í undanfarna mánuði hefur sumarið sem nú er á enda verið nokkuð líflegt, mun líflegra en flest okkar áttu von á. Haustið virðist einnig nokkuð vel bókað hjá mörgum, einkum ökuleiðsögumönnum, og því ber að fagna. Hvað veturinn ber í skauti sér virðist erfitt að spá um, en sennilega verður hann heldur verkefnasnauður fyrir flesta leiðsögumenn fyrir utan þá sem eru í styttri ferðum, svo sem norðurljósaferðum. Ef marka má orð ýmissa aðila sem ég hef rætt við undanfarið, svo sem forystufólk Samtaka ferðaþjónustunnar og ýmissa ferðaþjónustufyrirtækja, er bókunarstaðan fyrir næsta ár býsna góð svo fremi sem veiruskrattinn sem herjað hefur á heimsbyggðina undanfarið hálft annað ár sæki ekki í sig veðrið enn á ný.

Í samtölum við þetta fólk, fjölda leiðsögumanna undanfarið og fleiri hefur komið fram að skortur á leiðsögumönnum virðist vera vandamál. Fátt af því fólki sem lauk námi í leiðsögn á síðasta og þessu ári og telst nú vera faglærðir leiðsögumenn hefur hafið störf sem slíkt þrátt fyrir eftirspurnina og jafnvel reyndir, faglærðir leiðsögumenn hafa horfið til annarra starfa. Ástæðan virðist í meginatriðum vera tvíþætt. Ótryggt ráðningasamband og lág laun. Ef svo heldur sem horfir og ferðaþjónustan kemst á fullt skrið fyrripart næsta árs gæti því stefnt í alvarlegan skort á leiðsögumönnum.

Hlutverk Leiðsagnar er að gæta hagsmuna félagsmanna sinna, leiðsögumanna, berjast fyrir bættum launum og vinnuumhverfi. Stöðugt er unnið að því að þjónusta leiðsögumenn sem eru í vafa um rétt sinn gagnvart vinnuveitendum og því miður eru of mörg dæmi um það undanfarið að fyrirtæki reyni að notfæra sér núverandi ástandi til að hýrudraga leiðsögumenn. Kjaranefnd félagsins og forysta þess leitast þá við að koma félagmönnum til aðstoðar, enda er það mun skilvirkara en að einstakur félagsmaður standi í stappi við vinnuveitandann. Ég vil því hvetja leiðsögumenn eindregið að leita til félagsins hafi þeir spurningar varðandi launakjör og ráðningarfyrirkomulag. Erindi sem þessi geta verið flókin en reynt er að svara öllum erindum eins fljótt og auðið er.

Dagana 15. og 16. október sótti ég fróðlega ráðstefnu Landsbjargar, Slysavarnir, sem haldin er á tveggja ára fresti og var þá haldin í fjórða sinn. Þar hitti ég fjölmarga aðila sem vinna að öryggismálum í landinu, sérfæðinga í náttúruvá, merkingum á ferðamannastöðum o.fl., sjá: https://slysavarnaradstefna.landsbjorg.is/.

Meðal erinda var kynning á Vegrúnu sem er nýtt merkingakerfi, ætlað öllum þeim sem setja upp merkingar á ferðamannastöðum eða friðlýstum svæðum. Vegrún stendur öllum til boða jafnt opinberum aðilum sem og einkaaðilum um allt land. Kerfið er hannað til að samræma merkingar hér á landi, til einföldunar fyrir uppbyggingaraðila og til að bæta upplifun ferðamanna, auka gæði, samræma upplýsingagjöf og auka öryggi og er þannig mikilvægur hluti af stýringu ferðamanna og slysavörnum.

Í umræðum að erindinu loknu kom fram að samráð var haft við ýmsa aðila í ferðaþjónustunni, ferðafélög og útivistarsamtök. Ekkert samráð var hins vegar haft við leiðsögumenn við undirbúning þessa mikilvæga verkefnis. Ég gerði alvarlegar athugasemdir við það og mun verða bætt úr því við áframhaldandi þróun merkingakerfisins.

Fyrr í dag, fimmtudaginn 28. október kynnti Kjaratölfræðinefnd fróðlega skýrslu um þróun launa á Íslandi, en hún getur verið afar gagnleg í undirbúningi þeirra kjaraviðræðna sem fara í hönd á næsta ári, sjá: www.ktn.is. Stjórn og kjaranefnd Leiðsagnar munu rýna skýrsluna og bera þær upplýsingar sem þar koma fram saman við kjör og launaþróun leiðsögumanna undanfarin ár.

Að lokum. Á fundi Trúnaðarráðs í síðustu viku kom fram sú hugmyndi að við leiðsögufólk myndum hittast óformlega seinnipartinn í nóvember, spjalla saman og efla tengslin okkar á milli. Staður og stund hafa ekki verið ákveðin, en tilkynning þess efnis verður send út þegar það liggur fyrir.

Kær kveðja,

Friðrik Rafnsson

formaður Leiðsagnar-stéttarfélags leiðsögumanna

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image