Leiðsögn
Kringlan 7, 103 Reykjavík
Kt. 510772-0249
Opið /Open
08:30 -16:00, mán.- fim.
08:30 -16:00, Mon. - Thur.
08:30 -15:00, föstudögum
08:30 -15:00, friday
Sími / Tel
+354 588 8670
Gleðilegt nýtt ár kæru leiðsögumenn og takk fyrir það liðna.
Nýliðið ár var ærið sérstakt fyrir okkur öll. Framan af árinu var óvissan algjör og flestir leiðsögumenn voru meira og minna verkefnalausir en þegar leið að sumri rættist heldur úr og sumarið reyndist nokkuð gott, meðal annars vegna þess að vel tókst að kljást við pestina og gos hófst á Reykjanesskaga.
Ný stjórn Leiðsagnar var kosin á aðalfundi félagsins í júní, hefur fundað reglulega og undanfarna mánuði hefur ötullega verið unnið að framfara- og hagsmunamálum félagsmanna, m.a. auka gagnsæi og efla samskipti innan félags sem utan, meðal annars með pistlum eins og þessum.
Haldið hefur verið þétt og skipulega utanum fjármál félagsins og eru þau nú í góðu horfi þrátt fyrir nokkuð tekjutap vegna pestarinnar. Starfshópur um breytingar á lögum félagsins hefur hafið störf rétt eins og ákveðið var á aðalfundinum og munu tillögur þess efnis verða lagðar fram til umræðu og vonandi samþykktar á næsta aðalfundi. Félagið hefur skipað fulltrúa sinn í starfshóp Menntamálastofnunar um menntun leiðsögumanna og mun niðurstaða starfshópsins væntanlega liggja fyrir með vorinu.
Unnið hefur verið skipulega að því að efla og styrkja tengslin við ýmsa aðila sem skipta leiðsögumenn miklu máli, svo sem Slysavarnafélagið Landsbjörg, Almannavarnir og Samtök ferðaþjónustunnar, auk þess sem rætt hefur verið við Félag fjallaleiðsögumanna um nánara samstarf og samvinnu. Þar skiptir miklu máli að gagnkvæmt traust ríki milli leiðsögumanna og þessara aðila, þannig náum við enn betur því markmiði sem hlýtur ævinlega að vera leiðarljós okkar: styrkja okkur faglega og þjóna farþegum okkar enn betur.
Innra starf félagsins og þjónusta við félagsmenn er einn af lykilþáttum starfseminnar og það er í sífelldri þróun. Þrennt ber hæst um þessar mundir. Starfshlutfall starfsmanns á skrifstofunni, Ragnheiðar Ármannsdóttur, hefur verið hækkað úr hálfu starfi í sjötíu og fimm prósent starf, sem þýðir aukin þjónusta af hálfu félagsins. Launareiknivél sem félagar geta nýtt sér verður sett inn á innri vef félagsins nú í janúar og hana geta félagsmenn nýtt sér til að ganga úr skugga um að laun og launatengd gjöld séu rétt reiknuð, hvort sem fólk starfar sem launþegar eða verktakar. Loks styttist í að langþráð félagatal verði sett á vef félagsins, en talsvert hefur verið kallað eftir því undanfarið. Ennfremur má nefna að ég hef ákveðið að vera með vikulega fasta viðtalstíma á skrifstofu félagsins að Stórhöfða 29 og eru félagsmenn hvattir til að hafa samband símleiðis eða mæta þangað með erindi sín og ábendingar, hvort sem það varðar félagið almennt eða einstök mál viðkomandi. Tilkynning um fyrirkomulag þessa verður send út á næstunni.
Stjórnir Sjúkrasjóðs og Endurmenntunarsjóðs Leiðsagnar hafa fundað reglulega á árinu og afgreitt fjölda umsókna, en meðal þeirra sem varða félagsmenn alla er að Fræðslunefnd hyggst á næstu mánuðum bjóða upp á sex örfyrirlestra um ýmis áhugaverð efni í samvinnu við Endurmenntun Háskóla Íslands.
Tvær breytingar urðu í stjórninni á árinu. Júlíus Freyr Theodórsson meðstjórnandi sagði af sér s.l. sumar sökum anna og skömmu fyrir jól tilkynnti Jakob S. Jónsson, ritari félagsins stjórn og trúnaðarráði að hann hefði af persónulegum ástæðum ákveðið að segja sig frá öllum trúnaðarstörfum á vegum Leiðsagnar. Ég vil fyrir hönd félagsins þakka þeim báðum mjög gott samstarf og óska þeim alls hins besta.
Við fögnum fimmtugsafmæli Leiðsagnar á þessu ári, en það var stofnað árið 1972. Vinna er þegar farin af stað undir forustu varaformannsins, Snorra Steins Sigurðssonar, til að fagna því með ýmsu móti sem verður tilkynnt innan tíðar, en allar tillögur og ábendingar frá félagsmönnum eru vel þegnar. Félagið á sér merka sögu, við getum verið stolt af því að vera hluti af þeirri sögu og nú er okkar að efla það enn frekar saman.
Veiruskrattinn herjar á landsmenn og heimsbyggðina sem aldrei fyrr þegar þessar línur eru skrifaðar. Þó virðist að sögn sóttvarnarlæknis og yfirvalda nokkur von um að sjái fyrir endann á þeim ósköpum á næstu mánuðum. Enda þótt slíkar spár hafi heyrst áður á undanförum misserum leyfi ég mér að vera hóflega bjartsýnn í upphafi þessa árs.
Kæru leiðsögumenn, við erum vön að leiða farþega okkar áfram við ýmsar, oft afar erfiðar aðstæður en skila þeim heilum á áfangastað. Það eru væntanlega nokkrir skaflar framundan hjá okkur en vonandi lagast ástandið á útmánuðum þegar sól tekur á hækka á lofti. Þá verðum við til þjónustu reiðubúin, tökum vel og faglega á móti erlendu gestunum okkar og leggjum okkar að mörkum til að endurreisa ferðaþjónustuna.
Ég vil að lokum ítreka óskir mínar um gleðilegt nýtt ár og vona að það verði ykkur öllum gott og gjöfult.
Kær kveðja,
Friðrik Rafnsson
formaður Leiðsagnar – stéttarfélags leiðsögumanna
PS: Ný launatafla tók gildi 1. janúar sl. og gildir hún þar til samið hefur verið á ný, en núverandi samningur rennur út í nóvember. Hér er hlekkur á núgildandi launatöflu: https://www.touristguide.is/images/Launatafla_2022.pdf
Þessi vefsíða notar vafrakökur, með því að heimsækja vefsíðu okkar samþykkir þú notkun á vafrakökum. Sjá nánar.