Leiðsögn
Kringlan 7, 103 Reykjavík
Kt. 510772-0249
Opið /Open
08:30 -16:00, mán.- fim.
08:30 -16:00, Mon. - Thur.
08:30 -15:00, föstudögum
08:30 -15:00, friday
Sími / Tel
+354 588 8670
Laugardaginn 15. janúar birtist eftirfarandi grein eftir formann Leiðsagnar í Morgunblaðinu:
Eitt af því sem gjarnan er rætt varðandi ferðaþjónustuna er nauðsyn þess að hún sé samkeppnishæf. Ferðaþjónusta sé alþjóðlegt fyrirbæri og því verði íslensk ferðaþjónustufyrirtæki að geta boðið verð og gæði sem laði ferðamenn hingað til lands. Verð og gæði verði að haldast í heldur, annars missum við af lestinni og þjóðarbúið verði af gríðarlegum tekjum.
Allt er það nú gott og blessað, en þegar samkeppnishæfni landsins í ferðaþjónustunni er til umræðu er viðkvæði okkar ágætu en fráleitt óskeikulu hagspekinga mjög oft það að halda verði launum niðri ella fari illa. En lífið er ekki excel-skjal. Hvernig væri að sýna aðeins meiri metnað og hugsa um gæðin og fagmennskuna?
Á ágætum morgunfundi um framtíð ferðaþjónustunnar sem Samtök ferðaþjónustunnar, KPMG og Íslenski ferðaklasinn efndu til þann 11. janúar síðastliðinn var rætt um að Ísland stæði sterkt að ýmsu leyti og hefði alla burði til að draga til sín aukinn fjölda ferðamanna bæði fljótt og vel þegar covid-19 slotar, vonandi á næstu mánuðum. Þar kæmi til jákvætt orðspor landsins, öryggi, fámenni, falleg og heillandi náttúra, mögnuð og fjölbreytt menning, o.fl. Ýmsir óvissuþættir væru einnig framundan, meðal annars óvissa um það hversu hratt faraldurinn fjaraði út í heiminum, óvíst væri um ferðavilja fólks, en líka að framundan væru kunnuglegir óvissuþættir ferðaþjónustufyrirtækja, eins og gengi krónunnar og aukinn launakostnaður. Enn einn óvissuþátturinn sem nefndur var er það hvernig ganga muni að fá fólk sem undanfarið hefur snúið til annarra starfa aftur til að vinna í ferðaþjónustunni þegar hún kemst aftur á flug, eins og spáð hefur verið.
Gæði og fagmennska eru meginþættirnir í samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar. Langflestir íslenskir leiðsögumenn, framlínufólkið í ferðaþjónustunni, eru háskólamenntaðir á ýmsum sviðum og hafa auk þess bætt við sig leiðsögunámi. Leiðsögumenn eru með öðrum orðum sérfræðingar á sínu sviði, endurmennta sig reglulega í öryggismálum og bera mikla alhliða ábyrgð gagnvart erlendu gestunum okkar. Laun leiðsögumanna endurspegla hins vegar því miður ekki þann veruleika. Frá því faraldurinn skall á fyrir bráðum tveimur árum hafa fjölmargir reyndir og vel þjálfaðir leiðsögumenn horfið til annarra starfa þar sem laun eru hærri og atvinnuöryggi meira. Því getur orðið snúið fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að fá hæfa og vel menntaða leiðsögumenn til starfa á næstu misserum.
Þess vegna er mikilvægt að ferðaþjónustan gangi á vit nýrra tíma af metnaði og skörungsskap með vel þjálfað og vel launað fagfólk í fararbroddi, fólk sem getur veitt erlendu gestunum okkar þá skemmtun, fróðleik og öryggi sem þeir eiga skilið.
Þessi vefsíða notar vafrakökur, með því að heimsækja vefsíðu okkar samþykkir þú notkun á vafrakökum. Sjá nánar.