×

Warning

JUser: :_load: Unable to load user with ID: 1411998
19
Jan

Menningarknúin ferðaþjónusta

Fyrir nokkrum árum kom hingað til lands einn af merkustu rithöfundum hins frönskumælandi heims, Patrick Chamoiseau. Hann er frá eyjunni Martinique í Karíbahafinu, stað sem einkennist af fallegu landslagi, bláum sjávarlónum og pálmatrjám og er því afar vinsæl meðal ferðamanna, einkum Frakka, enda er eyjan í þeirra eigu og íbúar hennar tala kreólsku og frönsku. Fyrir okkur hér á norðurhjara veraldar er slík eyja auðvitað nánast Paradís og vissulega mun hún vera það, en rétt eins og hér geta náttúruöflin minnt hressilega á sig því hvirfilbylir eru árvissir atburðir og þar er einnig virkt eldfjall, La Montagne Pelée, þar sem gríðarlegt sprengigos varð árið 1902 með þeim afleiðingum að fimmtungur íbúanna lést, eða um þrjátíu þúsund manns. Íbúar þessarar eldfjallaeyju hafa því gengið í gegnum miklar náttúruhamfarir sem hafa mótað menningu þeirra og sögu rétt eins og við þekkjum hérlendis. En fleira tengir okkur saman, til dæmis sagnamenningin.

Sagnabrunnar

Ég var svo heppinn að fá að skreppa með Chamoiseau í nokkrar ferðir um landið okkar og þá sem endranær var áhugavert að heyra hvað vakti helst athygli hins erlenda gests. Mér er minnisstætt að hann tók meðal annars eftir enn einu atriði sem tengir saman eyjarnar tvær, Ísland og Martinique. Þar eins og hér er fátt um glæsilegar hallir, kastala og kirkjur frá ýmsum tímum eins og sjá má í Frakklandi og um alla Evrópu, mannvirki sem búa yfir merkri sögu. Á Martinique eins og hér er hins vegar aragrúi náttúrufyrirbæra, fjöll, fossar, uppsprettur, klettar og klungur sem tengjast sögum. Yfirlætislausir sögustaðir eða sagnabrunnar í orðsins fyllstu merkingu. Sögur sem sprottnar eru af þessum stöðum hafa verið sagðar mann fram af manni. Munnlega geymdin gæddi þá lífi öldum saman og gerir enn, jafnvel eftir að sumar þessara sagna voru skráðar á bækur. Staður kveikti frásögn og gerir enn.

Skapandi ferðamennska

Enda þótt við höfum mun lengri rithefð en íbúar Martinique er þetta að mörgu leyti ekki ósvipað hér og þar. Við státum vissulega af nokkrum myndarlegum mannvirkjum en sagnamennskan er engu að síður undirstaða menningar okkar. Það er vissulega gaman og fallegt að aka til dæmis um Borgarfjörðinn, Skagafjörðinn og Fljótshlíðina, en sá leiðsögumaður sem fer þar um með hóp af ferðamönnum án þess að minnast til dæmis á Eglu, Grettlu og Njálu er sannarlega ekki að standa sig. Og alltaf er gaman að segja frá manninum sem komst undan óvinum sínum með því að fara á handahlaupum upp á Eiríksjökul, frá Bárði Snæfellsás, hóffari Sleipnis sem við köllum Ásbyrgi, dröngum sem eru leifar af tröllum sem urðu að steini, o.s.frv. Flestir leiðsögumenn rekja frásagnir úr Íslendingasögunum og þjóðsögunum en útskýra einnig jarðfræðina og tvinna þannig saman skemmtun og fróðleik. Sagnamennskan er hlut af menningararfi okkar og snar þáttur í því sem stundum er kallað menningartengd ferðamennska. Það mætti jafnvel ganga lengra og kalla þetta skapandi ferðamennsku.

Samspil náttúru og menningar

Talið er að um áttatíu prósent erlendra ferðamanna komi hingað til lands til að skoða náttúruna og njóta hennar. Um tuttugu prósent koma hingað vegna menningarinnar. Ég leiðsegi til dæmis mestmegnis frönskum eða frönskumælandi ferðamönnum. Náttúran, frelsið og víðáttan er vissulega aðal aðdráttaraflið, en langflestir þessara ferðamanna hafa aukinheldur lesið bækur eftir Arnald Indriðason, Auði Övu Ólafsdóttur, Jón Kalman Stefánsson eða Ragnar Jónasson, séð íslenskar kvikmyndir eða sjónvarpsþætti og/eða sótt tónleika með Björk, Sigurrós, Barða Jóhannssyni, o.s.frv.

Gæfuspor fyrir land og þjóð

Menningin er því snar þáttur í því að fólk ákveður að koma hingað, skoða landið og kynnast þessari undarlegu eyþjóð. Hingað komið hefur það mjög marga góða valkosti í menningarmálum en ég held að við gætum gert enn betur í að tvinna saman menningu og náttúru, leggja jafnvel meiri áherslu á menninguna sem slíka og sinna menningarsinnuðum ferðamönnum enn betur. Í því liggja gríðarleg sóknarfæri fyrir ferðaþjónustuna um land allt. Fjölmargar skýrslur hafa verið skrifaðar um þetta efni á vegum ríkis og sveitarfélaga undanfarna áratugi og ýmislegt gott hefur verið gert. En betur má ef duga skal nú þegar ferðaþjónustan fer vonandi að rétta aftur úr kútnum. Því fagna ég sérstaklega að ríkisstjórnin skuli hafa ákveðið að setja menningar- og ferðamál undir eitt ráðuneyti sem nú er í mótun. Vonandi er það gæfuspor fyrir land og þjóð. Loks vil ég óska ráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, innilega til hamingju með embættið, óska henni velfarnaðar og lýsi áhuga okkar leiðsögumanna, framlínufólksins í ferðaþjónustunni, á að leggja okkar af mörkum við mótun og framkvæmd stefnu sem felst í aukinni áherslu á menningarknúna ferðaþjónustu. 

Friðrik Rafnsson, formaður Leiðsagnar-stéttarfélags leiðsögumanna.

(Grein þessi birtist í Fréttablaðinu fimmmtudaginn 10. janúar 2022.)

 

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image