×

Warning

JUser: :_load: Unable to load user with ID: 1411998
27
Jan

Pistill frá formanni

Kæru leiðsögumenn.

Samkvæmt nýjustu fréttum virðist pestin illskæða vera heldur að gefa eftir. Gangi það eftir ætti lífið aftur að verða orðið nokkuð eðlileg með vorinu og í ljósi þessa ætla yfirvöld létta sóttvörnum í áföngum. Það kveikir þá von að ferðaþjónustan taki vel við sér og samkvæmt núverandi spám gæti ferðamannafjöldinn farið yfir milljónina þetta árið, en ferðamenn voru um sjö hundruð þúsund í fyrra. Við getum því leyft okkur að vera nokkuð bjartsýn og farið að hlakka til að komast aftur á kreik með okkar góðu erlendu gesti.

Stjórn Leiðsagnar ákvað að halda heils dags vinnufund þann 17. janúar síðastliðinn til að ræða ýmis hagsmunamál leiðsögumanna og leggja línurnar fyrir árið. Fundurinn var afar árangursríkur og verður fundargerðin birt á vef félagsins innan tíðar.

Meðal efnis var vinna við að uppfæra siðareglur Leiðsagnar. Drög að þeim liggja fyrir og þau hafa fengið umfjöllun hjá samstarfsaðila félagsins í þessu máli, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Stjórnin vinnur þær nú áfram, kynnir þær á félagsfundi sem áætlað er að halda þegar aðstæður vegna pestarinnar leyfa það og loks verða þær lagðar fyrir næsta aðalfund til umræðu og vonandi samþykktar. Það er afar mikilvægt að þær séu skýrar og ferlar traustir, ekki síst í viðkvæmum málum eins og kynferðislegri áreitni.

Vinna Lagabreytinganefndar er komin á fulla ferð, nefndin er að fara yfir þær lagabreytingatillögur sem bárust fyrir síðasta aðalfund, setja saman drög að tillögu sem vonandi verða til bóta fyrir alla félagsmenn. Þau verða kynnt félagsmönnum og óskað eftir breytingatillögum og loks verður lokatillaga lögð fyrir aðalfund sem haldinn verður í apríl ef aðstæður leyfa.

Það er mér sérstök ánægja að tilkynna að launareiknivél sú sem hefur verið í smíðum um nokkurt skeið er nú tilbúin og er aðgengileg á vefsíðu félagsins, https://www.touristguide.is/ , svæði sem nefnist Félagavefur efst í hægra horninu. Þar geta fullgildir félagsmenn skráð sig inn með rafrænum skilríkjum með farsíma eða öðrum tölvubúnaði (líkt og þegar kosið var á síðasta aðalfundi), slegið inn ýmsar forsendur og fengið út hvað þeim ber að fá greitt í laun ásamt launatengdum gjöldum, hvort sem viðkomandi er launþegi eða verktaki.

Það er mikilvægt að hlusta á raddir félagsmanna. Skrifstofunni og einstökum stjórnarmönnum berast fjölmargar fyrirspurnir og ábendingar og er reynt að svara þeim eftir föngum. Til að sýna þessa stefnu enn betur í verki mun ég verða með síma- og viðtalstíma á næstunni og verður sá fyrsti fimmtudaginn 10. febrúar frá kl. 11-13. Fólk getur þá pantað tíma fyrirfram á skrifstofunni í síma 588.86.70 eða sent mér póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Símanúmer í símatímanum er 772.55.59. Ég hvet félagsmenn eindregið til að hafa samband við mig á þessum tíma, hvort sem það varðar málefni félagsins eða starf þeirra sem leiðsögumanna. Farið verður með öll erindi sem trúnaðarmál.

Ég minni loks félagsmenn á að greiða fagdeildargjöldin sem nú hafa verið send í heimabanka fyrir næstu mánaðarmót (gjalddagi) og tryggja jafnframt að vinnuveitendur ykkar greiði félagsgjöld til Leiðsagnar. Fagdeildargjaldið og stéttarfélagsgjöldin veita félagsmönnum ýmis réttindi, aðgang að fræðslu og þjónustu félagsins, þetta eru tekjulindir Leiðsagnar og gera okkur leiðsögumönnum kleift að efla okkur og styrkja á margvíslegan hátt, faglega og félagslega.

Kærar kveðjur,

Friðrik Rafnsson

formaður Leiðsagnar-stéttarfélags leiðsögumanna.

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image