×

Warning

JUser: :_load: Unable to load user with ID: 1411998
21
Feb

Alþjóðadagur leiðsögumanna, framlínufólksins í ferðaþjónustunni

Kæru leiðsögumenn, hér er grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag, mánudaginn 21. febrúar.

„Leiðsögumaður er sá sem leiðsegir ferðamönnum á því tungumáli sem honum er falið og túlkar menningar- og náttúruminjar/arfleifð tiltekins svæðis. Viðkomandi leiðsögumaður hefur að jafnaði sérþekkingu á svæðinu og er hæfni hans viðurkennd af viðeigandi yfirvöldum.“  Svo segir í skýrslu starfshóps á vegum Leiðsagnar, Atvinnu-, ferðamála- og nýsköpunarráðuneytisins og fleiri aðla sem kom út í maí á síðasta ári, en starfshópnum var ætlað að koma með tillögur til að að styrkja og efla menntun og starfsþjálfun leiðsögumanna með áherslu á neytendavernd, náttúruvernd og öryggi. Þar segir ennfremur: „Leiðsögumenn gegna lykilhlutverki í upplifun ferðamanna af landi og þjóð. Því skiptir menntun þeirra og þjálfun miklu. Í starfi sínu hafa þeir ekki einungis áhrif á upplifun og öryggi ferðamannanna heldur einnig á jafnvægið á milli verndunar íslenskrar náttúru og hagnýtingar, þeir geta með framlagi sínu lagt sitt af mörkum í átt að sjálfbærri þróun atvinnugreinarinnar.“

Skemmtilegt ábyrgðarstarf

Leiðsögumenn bera því mikla ábyrgð og til að geta axlað hana þurfa þeir að vera menntaðir og þjálfaðir til að fást við krefjandi verkefni, stundum við erfiðar aðstæður. Veður og aðstæður í íslenskri náttúru geta breyst á svipstundu og allir sem vinna þjónustustörf vita að fólk er afar mismundandi og menningarmunur verulegur. Einmitt þetta gerir það að verkum að starf leiðsögumannsins er í senn krefjandi og gefandi.

Ástæðan fyrir því að ég  rifja upp það sem sumum kann að vera almælt tíðindi er sú að í dag fagna leiðsögumenn um heim allan deginum sínum. Alþjóðasamband leiðsögumanna hefur nefnilega fagnað degi leiðsögumanna 21. febrúar ár hvert frá árinu 1990. Tilgangurinn með þessum degi er að vekja athygli á mikilvægi leiðsögumanna um heim allan en það felst einkum í fimm meginatriðum. Fræðslu, skemmtun, öryggi, náttúruvernd og neytendavernd.

Fimmtugsafmæli Leiðsagnar

Leiðsögn, félag leiðsögumanna, var stofnað árið 1972 til að efla samtakamátt og fagmennsku innan stéttarinnar og því fagnar félagið fimmtugsafmæli síðar á þessu ári. Eins og allir vita hefur ferðaþjónustan gerbreyst á þessum fimm áratugum, vaxið úr því að vera jaðargrein yfir hásumarið upp í það að vera einn af burðarásum íslensks atvinnulífs allt árið. Hér áður fyrr var starf leiðsögumannsins gjarna sumarvinna kennara, en undanfarinn áratug eða lengur hefur ferðaþjónustan verið meginlifibrauð hundruða leiðsögumanna mestallt eða allt árið. Nú eru félagar í Leiðsögn hátt í átta hundruð. Flestir leiðsögumenn eru faglærðir og bera sérstakan skjöld á sér því til sönnunar, hafa háskólanám að baki auk sérnáms (bóklegs og verklegs) í leiðsögn og eru konur í meirihluta.

Viðkvæmt blóm

Ferðaþjónustan er viðkvæmt blóm, enda fer fólk skiljanlega ekki í frí til staða þar sem það getur ekki verið visst um eigið öryggi eða heilsu. Það höfum við séð glögglega um allan heim undanfarin misseri þar sem veitingastaðir og hótel hafa staðið hálftóm. En nú þegar pestin sem herjað hefur á mannkynið er vonandi að láta undan síga mun ferðaþjónustan taka vel við sér og allt bendir til að Ísland sé ofarlega á  óskalista væntanlegra ferðamanna. Fólk er farið að þrá ferðalög á ný en ferðamynstrið mun mjög líklegra breytast, verða vistvænna, hægara, vandaðra og menningarlegra. Og ég spái því einnig að ferðamennirnir verði enn kröfuharðari en áður og láti hvorki bjóða sér fúsk né viðvaningshátt.

Við leiðsögumenn, framlínufólkið í ferðaþjónustunni, hlökkum til að þróa ferðaþjónustuna í takt við nýja tíma og vinna ásamt yfirvöldum, Samtökum ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu og fleiri lykilaðilum í ferðaþjónustunni að endurreisn þessarar lykilatvinnugreinar á næstu misserum og árum.

Friðrik Rafnsson, formaður Leiðsagnar, stéttarfélags Leiðsögumanna

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image