×

Warning

JUser: :_load: Unable to load user with ID: 1411998
10
Mars

Pistill frá formanni: traust og fagmennska

 

Ágætu leiðsögumenn.

Leiðsögumannsstarfið byggist rétt eins og önnur þjónustustörf á traustri og góðri samvinnu milli okkar leiðsögumannsins og annarra sem koma að skipulagi og framkvæmd ferðanna. Við leiðsögumenn þurfum því stöðugt að sýna að okkur sé treystandi fyrir þeirri miklu ábyrgð sem felst í því að að þjóna farþegunum okkar af fagmennsku og fumleysi við ýmsar og oft krefjandi aðstæður. Traust er er því stöðugt verkefni, nokkuð sem við þurfum öll að ávinna okkur og verðskulda aftur og aftur. Gagnkvæmt og verðskuldað traust er gulli betra í öllu samstarfi, ekki síst í þeirri flóknu og fjölbreyttu grein sem ferðaþjónustan er sannarlega

Í félagi eins og Leiðsögn þurfum við leiðsögumenn líka að geta treyst hvert öðru. Því miður virðist nokkur misbrestur hafa verið á því undanfarin ár. Þess vegna höfum við sem nú erum í forystu félagsins lagt kapp á að efla traust til félagsins, bæði inn á við og út á við. Varðandi fyrri þáttinn má til dæmis nefna að við höfum unnið markvisst að því að bæta verkferla og utanumhald gagna sem varða starfsemi félagsins og sjóða þess og gætt vel fjárhags félagsins á þessum viðkvæmu tímum í ferðaþjónustunni. Ennfremur gengur vinna við nýjar siðareglur félagsins í samvinnu við Siðfræðistofnun H.Í. vel og verða tillögur að þeim kynntar fyrir félagsmönnum á næstunni.

Skýr og skiljanlegur lagarammi er öllum félögum nauðsynlegur. Á síðasta aðalfundi Leiðsagnar var ákveðið að skipa lagabreytinganefnd sem tók til starfa s.l. haust. Sú vinna gengur afar vel og verður breytingatillagan kynnt á félagsfundi og síðan lögð fyrir aðalfund til samþykktar. Tilkynnt verður um stað og tíma beggja þeirra funda innan tíðar.

Því miður eru nú sem fyrr nokkur brögð að því að ferðaþjónustufyrirtæki fari ekki að kjarasamningum og stundi jafnvel það sem stundum er kallað launastuldur. Sökum smæðar sinnar hefur Leiðsögn ekki haft burði til að gæta hagsmuna félagsmanna sem skyldi, en nú hefur Kjaranefnd undir forystu Snorra Steins Sigurðssonar gert átak í þessum efnum í samvinnu við ASÍ, VR og fleiri aðila sem gæta hagsmuna félagsmanna sinna. Sem dæmi má nefna að nú í þessari viku  var fundað með ónefndu ferðaþjónustufyrirtæki vegna afar losaralegra ráðningarsamninga og meints launastuldar. Á honum voru málin rædd af hreinskiptni Vonandi verður hann til þess að það fyrirtæki og fleiri átti sig á því að slík vinnubrögð viðsemjenda okkar verða ekki liðin í framtíðinni.

Traust á okkur leiðsögumönnum, og þar með félaginu okkar út á við, byggist náttúrulega fyrst og fremst á því hvernig við innum störf okkar af hendi. Nú á tímum fjöl- og samfélagsmiðla skiptir jákvæð umfjöllun líka miklu máli. Þess vegna hef ég reynt að vekja athygli á mikilvægi leiðsögumannsins í greinum og viðtölum, m.a. í tengslum við Alþjóðadag leiðsögumanna þann 21. febrúar síðastliðinn.

Ein þessara greina, Menningarknúin ferðamennska (Fréttablaðið,10. janúar 2022) vakti athygli Lilju Daggar Alfreðsdóttur, ráðherra ferðamála, viðskipta og menningarmála, og hafði ráðuneytið samband við formann og bauð fulltrúum Leiðsagnar á fund með ráðherra. Við Harpa Björnsdóttir, ritari Leiðsagnar, áttum mjög góðan fund með ráðherra og aðstoðarfólki í síðasta mánuði. Ráðherra sýndi mikinn áhuga og skilning á mikilvægi leiðsögumanna í ferðaþjónustunni og lýsti áhuga á að efla og styrkja sambandið milli Leiðsagnar og ráðuneytisins, meðal annars með reglulegum fundum.

Veturinn hefur verið ansi stormasamur í margvíslegum skilningi þess orðs. En nú lengir daginn hratt, vorið er handan við hornið og við stefnum ótrauð að því að hittast til að ræða sameiginleg hagsmunamál okkar leiðsögumanna.

Kær kveðja,

Friðrik Rafnsson

formaður Leiðsagnar – stéttarfélags leiðsögumanna

 

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image