×

Warning

JUser: :_load: Unable to load user with ID: 1411998
06
Júní

Hjartanlega til hamingju með afmælisdaginn, kæru leiðsögumenn!

Félag leiðsögumanna fagnar fimmtíu ára afmæli í dag. Það var stofnað 6. júní 1972 á Hótel Loftleiðum þegar hátt í þrjátíu manns, karlar og konur sem höfðu unnið við að lóðsa erlenda ferðamenn um landið komu saman og stofnuðu með sér félag. Tilgangur félagsins var að efla samstöðu meðal leiðsögumanna og vinna að bættum kjörum, menntun og fagmennsku. Bjarni Bjarnason kennari var kosinn fyrsti formaður félagsins og hann lagði ásamt öðrum stofnfélögum grunninn að því félagi sem nú er starfandi, Leiðsögn, félag leiðsögumanna.

Fagmennskan í fyrirrúmi

Leiðsögn, félag leiðsögumanna er í senn fag- og stéttarfélag. Meðlimir þess eru langflestir faglærðir leiðsögumenn og bera sérstakan skjöld því til sönnunar. Það er nokkurs konar gæðastimpill, tákn um að þarna sé á ferðinni fagmaður sem farþegar, ferðaþjónustufyrirtæki og aðrir samstarfsaðilar geta treyst. En hann er líka ákveðið aðhald fyrir okkur faglærða leiðsögumenn sem verðum þá stöðugt að sýna að við séum traustsins verð.

Fyrir nokkrum árum var ákveðið að hleypa einnig ófaglærðum leiðsögumönnum inn í félagið að uppfylltum tilteknum skilyrðum og þeir jafnframt hvattir að afla sér fullrar menntunar á sviði leiðsagnar. Nú er unnið að því að efla enn menntun leiðsögumanna í samstarfi við skólakerfið og yfirvöld, meðal annars með svokölluðu raunfærnimati. Tryggja þannig að gæðin og fagmennskan verði höfð að leiðarljósi en í því felst að okkar mati ákveðin neytenda- og náttúruvernd. Þar með ættu öll alvöru  ferðaþjónustufyrirtæki sem rekin eru af metnaði og fagmennsku að geta ráðið til starfa góða og faglega leiðsögumenn og þjónað farþegum sínum með þeim sóma sem þeim ber.  

Fjöltyngdir sérfræðingar

Eins og allir vita hefur ferðaþjónustan gerbreyst á þessum fimm áratugum, vaxið úr því að vera jaðargrein yfir hásumarið upp í það að vera einn af helstu burðarásum íslensks atvinnulífs allt árið.

Nú eru félagar í Leiðsögn hátt í átta hundruð. Flestir leiðsögumenn eru fjöltyngdir, faglærðir sérfræðingar, hafa háskólanám að baki auk bóklegs og verklegs sérnáms í leiðsögn og bera eins og áður segir sérstakan skjöld með ártali því til sönnunar. Leiðsögumenn vinna við  ýmsar tegundir leiðsagnar eða blanda þeim saman eftir þörfum og eftirspurn: almenna leiðsögn, ökuleiðsögn, gönguleiðsögn, jöklaleiðsögn o.s.frv., alls á annan tug sérsviða.

Framtíðin er björt

Leiðsögumannsstarfið er því gríðarlega fjölbreytt og skemmtilegt, ekki síst fyrir ungt fólk sem hefur gaman af því að ferðast um landið okkar fagra og umgangast fólk hvaðanæva að úr heiminum. Framtíðin er björt í ferðaþjónustunni, eftirspurn eftir góðu og vel menntuðu starfsfólki er mikil, leiðsögumenn eru framlínufólkið í þeim geira og því hvet ég sem flest til að kynna sér í hverju nám og starf leiðsögumannsins er fólgið. Nánari upplýsingar má sjá á vefsíðu Leiðsagnar: https://www.touristguide.is/.

Nú eru ferðamennirnir aftur farnir að streyma hingað til lands og mjög mikið er að gera hjá leiðsögumönnum við að þjóna þeim út um allt land næstu mánuðina, fræða þá um land og þjóð og sjá til þess að þeir njóti sumarfrísins til hins ýtrasta við öruggar aðstæður.

Því fögnum við leiðsögumenn afmælisdeginum mánudaginn 6. júní með því að sinna starfinu sem jafnvel enn betur en endranær, en svo verður efnt til veglegrar ráðstefnu og hátíðarsamkomu til að fagna fimmtugsafmælinu í haust.

Ég vil fyrir hönd Leiðsagar færa því metnaðarfulla og framsýna fólki sem stóð að stofnun félagsins á sínum tíma bestu þakkir fyrir það merka framtak. Ennfremur þakka þeim fjölda félagsmanna sem hafa lagt á sig ómælt starf í þágu félagsins í gegnum tíðina. Hjartanlega til hamingju með daginn, kæru leiðsögumenn!

Friðrik Rafnsson,  formaður Leiðsagnar-félags leiðsögumanna (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.)

           

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image