Leiðsögn
Kringlan 7, 103 Reykjavík
Kt. 510772-0249
Opið /Open
08:30 -16:00, mán.- fim.
08:30 -16:00, Mon. - Thur.
08:30 -15:00, föstudögum
08:30 -15:00, friday
Sími / Tel
+354 588 8670
Þriðjudaginn 17. janúar birtist eftirfarandi grein í Fréttablaðinu eftir Friðrik Rafnsson, formann Leiðsagnar:
Rútubílstjórar er ein þeirra mikilvægu stétta sem vinna starf sitt í hljóði og yfirleitt af miklu öryggi og samviskusemi. Þeir ábyrgði á lífi og limum farþega, oft við aðstæður sem eru erfiðar og krefjandi eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið. Ég þekki það sem leiðsögumaður að gott samstarf við bílstjórann er eitt mikilvægasta atriðið í hópferðum. Ef snurða hleypur á þann þráð og samskiptin eru stirð dögum saman milli bílstjóra og leiðsögumanns getur það bitnað á saklausum farþegunum sem hingað eru komnir til að njóta landsins okkar. Þetta er sem betur fer afar sjaldgæft. Þvert á móti er reynsla mín og langflestra leiðsögumanna sú að samstarf leiðsögumanns og bílstjóra er gott og gefandi. Þeir mynda tveggja manna þjónustuteymi, enda er markmið okkar það sama, þjóna farþegunum eins vel og við getum þannig að þeir snúi aftur til síns heima hæstánægðir og helst skælbrosandi.
Skýr verkaskipting
Rútubílstjórar eru eins og við öll afar mismundandi, allt frá þöglu týpunni sem ekki gefur mikið af sér yfir í hressu týpuna sem alltaf er í stuði og allt þar á milli. Allir (eða réttara sagt, öll, því konum fjölgar ört í hópi rútubílstóra og ökuleiðsögumanna) eiga þeir það sameiginlegt að gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem felst í að aka rútum sem taka allt upp í sjötíu farþega.
Flestir leiðsögumenn eru fjöltyngdir, faglærðir sérfræðingar. Margir hafa háskólanám að baki auk bóklegs og verklegs sérnáms í leiðsögn og bera þeir sérstakan skjöld með ártali því til sönnunar. Leiðsögumenn vinna við ýmsar tegundir leiðsagnar eða blanda þeim saman eftir þörfum og eftirspurn: almenna leiðsögn, ökuleiðsögn, gönguleiðsögn, jöklaleiðsögn o.s.frv., alls á annan tug sérsviða.
Starf okkar leiðsögumanna felst meðal annars í því að fræða erlendu farþegana okkar um land, þjóð, menningu og sögu og þar af leiðandi er hljóðneminn okkar helsta vinnutæki. Til þess er ætlast af okkur að við höfum svör við nánast öllu á reiðum höndum og við reynum eftir bestu getu að standa undir þeim væntingum. Nú á tímum upplýsingatækni koma farþegarnir vel undirbúnir hingað og vita talsvert um það sem lesa má á vefnum og í handbókum. Þess vegna finnst þeim einkar gaman að vera með íslenska leiðsögumenn og bílstjóra, heimamenn sem geta svarað spurningum um það hvernig er að vera Íslendingur og búa í þessu undarlega landi.
Fróðleiksbrunnar
Ég hef oft notið þeirrar gæfu að vera með staðkunnuga bílstjóra, menn sem eru héðan og þaðan af landinu og geta lætt að manni ýmsum misgagnlegum en skemmtilegum fróðleik sem vekur forvitni farþeganna.
Þess vegna hef ég stundum haldið því fram að góður leiðsögumaður eigi ekki einungis að kunna að segja vel og greinilega frá heldur verði hann ekki síður að kunna að hlusta. Hlusta á farþegana, bílstjórann og aðra sem geta orðið til þess að ferðin verður enn ánægjulegri en ella.
Sá leiðsögumaður sem telur sig vita allt á að finna sér eitthvað annað að gera.
Gríðarleg ábyrgð bílstjóra
Starf rútubílstjórans er mikilvægt, hann ber ábyrgð á farþegunum og farartækinu og á ekki að þurfa að hugsa um neitt annað meðan á ferðinni stendur. Þess vegna er afar vafasöm sú þróun sem því miður er farið að gæta í sívaxandi mæli. Hún er sú að senda bílstjóra í oft margra daga ferð við erfiðar aðstæður án faglærðs og vel þjálfaðs leiðsögumanns. Nýlegt dæmi. Bílstjóri var sendur í hringferð um landið án leiðsögumanns, en erlendur fylgdarmaður sem aldrei hafði áður hafði komið til landsins átti að gegna því hlutverki. Það þýddi að bílstjórinn þurfti í senn að aka og miðla hópstjóranum af þekkingu sinni jafnóðum og var í því raun orðin eins konar ökuleiðsögumaður án þess að fá greitt fyrir það sérstaklega. Ég grennslaðist fyrir um þetta mál hjá íslenska ferðaþjónustufyrirtækinu og fékk þau svör að þau vildu að sjálfsögðu helst hafa íslenskan, faglærðan leiðsögumann í öllum ferðum, en að erlendi viðskiptavinurinn teldi það óþarfa kostnað, nánast munað. Og þar sem kúnninn ræður verður þetta stundum niðurstaðan. Okkur leiðsögumönnum finnst þetta afar miður, enda bitnar það sannarlega á gæðum þjónustunnar og öryggi ferðamannanna eins og dæmin sanna.
Er möl dýrmætari en ferðafólk?
Það er gömul saga og ný að þær stéttir sem eru að sinna fólki og vinna með það þurfa stöðugt að berjast fyrir bættari kjörum. Dæmin eru mýmörg, en hér nægir að nefna hjúkrunarfræðinga og kennara.
Dæmi: Rútubílstjóri sem hafði ekið ferðamönnum um landið þvert og endilangt um tíu ára skeið missti vinnuna þegar kóvíd skall á og ferðaþjónustan hrundi skyndilega. Hann fékk strax vinnu við að keyra vörubíl, við malarflutninga í vegagerð eða eitthvað slíkt. Hann var auðvitað feginn að fá aðra vinnu strax og var lítið að spá í launin fyrr en hann fékk útborgað. Tímakaupið var þrjátíu prósentum (30%) hærra fyrir að aka möl en farþegum. Hann var auðvitað hæstánægður með það, en þegar ferðaþjónustan hrökk aftur í gang í fyrra fór hann aftur að aka rútu, enda mun skemmtilegra að aka fólki en möl. Skilaboðin eru semsagt þessi: möl er dýrmætari farmur en fólk. Hvers lags verðmætamat er þetta eignlega?
Eitt helsta vandamálið í fyrra var skortur á leiðsögumönnum vegna þess að margir þeirra hurfu til annarra starfa vegna ótryggs ráðningarsambands og lélegra launa. Var það og er vegna þess að við erum „bara“ að þjóna fólki sem hingað er komið til að njóta landsins okkar? Þetta þarf að laga og við sem vinnum í ferðaþjónustunni verðum að vinna að því saman, öllum til heilla, farþegum sem og ferðaþjónustunni í heild.
Fridrik Rafnsson, formaður Leiðsagnar.
Þessi vefsíða notar vafrakökur, með því að heimsækja vefsíðu okkar samþykkir þú notkun á vafrakökum. Sjá nánar.