20
Mars

Pistill frá formanni Leiðsagnar

Kæra leiðsögufólk.

Nú stefnir í sérlega líflegt sumar í ferðaþjónustunni og þar af leiðandi miklar annir hjá okkur. Ég minni því á að leiðsögumenn verða að passa vel upp á að þeim verði greitt samkvæmt þeim kjarasamningi sem nýlega var gengið frá og láta félagið vita af því er svo er ekki, í tölvupóstfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Munið að samningurinn er afturvirkur til 1. nóvember 2022. Nýi kjarasamningurinn veitir okkur þó nokkrar kjarabætur, en betur má ef duga skal og er það viðfangsefni áframhaldandi kjaraviðræðna á næstu mánuðum. Sama viðræðunefnd sem vann að skammtímasamningnum, sem nú hefur tekið gildi til 31. janúar 2024, mun vinna að kjarasamningi til lengri tíma á næstu mánuðum, en áframhaldandi umboð hennar var samþykkt á fundi Trúnaðarráðs Leiðsagnar þann 14.mars síðastliðinn.

Í næstu viku verður félagsmönnum Leiðsagnar send skoðanakönnun sem er fyrst og fremst til þess hugsuð að fá yfirsýn yfir samsetningu félagsmanna með tilliti til kyns, aldurs, menntunar, vinnuframlags, ráðningasambands og fleira slíks. Ég hvet ykkur öll til að taka þátt í könnuninni, því fleiri sem taka þátt því marktækari verða niðurstöður hennar. Slík könnun er afar mikilvæg fyrir framtíðarstarf félagsins og komandi kjaraviðræður. Við framkvæmd könnunarinnar verður alfarið fylgt persónuverndarlögum og hún verður ekki persónugreinanleg.

Endilega takið sem flest þátt í henni til að við fáum gleggri mynd af samsetningu félagsins.

Undanfarin ár hafa faglærðir leiðsögumenn sem eru skuldlausir við félagið fengið sendan lítinn límmiða til að festa á félagsskírteinið sem gjarna er síðan haft í skildinum góða til að auðkenna okkur. Í ár verður í fyrsta skipti sent skírteini með ártalinu og nafni leiðsögumanns og verða þau sent í næstu viku til faglærða leiðsögumanna sem hafa greitt  félagsgjaldið. Nánari upplýsingar veitir Ragnheiður í póstfanginu info@touristguide.

Starfsemi Leiðsagnar er með miklum blóma, fjárhagurinn traustur og mörg mikilvæg verkefni eru í vinnslu, meðal annars aukin tengslavinna innan stjórnkerfis og umhverfis ferðaþjónustunnar, vinna við raunfærnimat, menntun leiðsögumanna og alþjóðasamstarf. Nánar verður greint frá þessu á næsta aðalfundi félagsins sem verður haldinn þann 3. maí. Endilega takið daginn frá og mætið sem flest, enda er þetta í senn fagnaðarfundur okkar leiðsögumanna og sá fundur sem mótar stefnu félagsins og mannar trúnaðarstöður hverju sinni. Formleg tilkynning þess efnis verður send út bráðlega.

Kær kveðja,

Friðrik Rafnsson, formaður Leiðsagnar

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image