04
Maí

Kveðja frá Jónu Fanneyju, nýkjörnum formanni Leiðsagnar

JFF web

Kæru félagar.

Á aðalfundi Félags leiðsögumanna í gærkveldi var ég kosinn formaður félagsins. Af alhug þakka ég öllum þeim studdu mig í þetta ábyrgðamikla embætti.

Skipstjórinn í brúnni mun þó aldrei njóta aflasældar nema áhöfnin innanborðs sé skipuð kappsömu, traustu og hörkuduglegu fólki. Og það er sannarlega mikill fengur af því góða fólki sem kosið var í stjórn Leiðsagnar og aðrar trúnaðarstöður.

Stjórn Leiðsagnar skipa nú, auk mín, eftirtaldir aðilar:

Aðalstjórn:

Dóra Magnúsdóttir

Guðný Margrét Emilsdóttir

Snorri Steinn Sigurðsson

Leifur Björnsson

Varastjórn:

Hallfríður Þórarinsdóttir

Halldór Kolbeins

Sigurður Albert Guðmundsson

Jóhanna Magnúsdóttir

 

Um leið og við komumst nær lyklaborði og heimasíðu Leiðsagnar mun einnig allt það góða fólk sem kosið var í aðrar trúnaðarstöður leiðsagnar kynnt til leiks.

Þá ber ekki síst að þakka fráfarandi stjórn sem sinnt hefur ötulu og óeigingjörnu starfi undanfarin ár í þágu okkar félagsmanna. Ég met störf þessa fólk mikils, þótt hugmyndafræði okkar varðandi Félag leiðsögumanna, stefna og markmið gætu verið ólík.

Ég gantaðist við fráfarandi formann á fundinum í gær að nú væri ég tekin við keflinu sem ,,óvinsæli gaffallinn í skúffunni”, því ósjaldan sætir fólkið sem er í eldlínunni gagnrýni. Stundum á sú gagnrýni rétt á sér, en langoftast er hún óréttmæt.

Sjálf met ég það mikils að fá að vita hvað við í stjórn getum gert betur, fremur en gagnrýni á störf okkar fari eingöngu fram á kaffistofunni á Geysi  

Mér finnst mikilvægt að fram komi að afar mjótt var á munum okkar Friðriks Rafnssonar í formannskjörinu. Aðeins tvö atkvæði skildu á milli. Sú niðurstaða sýnir vel að fjöldi félagsmanna hefur verið mjög ánægður með störf Friðriks sl. tvö ár.

En eins og gamall samstarfsfélagi minn orðaði það svo oft; ,,Helvítis lýðræðið alltaf að þvælast fyrir.”

Í spjalli okkar Friðriks eftir fundinn sýndi hann mér mikla velvild, bauð fram aðstoð sýna og upplýsingar ef á þarf að halda. Það finnst mér virðingarvert og sýna hans innri mann. Hafi hann þökk fyrir!

Eins og ég hef bent á, á kynningarsíðu minni fyrir framboð mitt, eru það einkum þrjú veigamikil atriði sem ég mun leggja höfuðáherslu á í komandi stjórnarsamstarfi:

  •  Leiðrétting launa leiðsögumanna í komandi kjarasamningum
  •  Sameining og samstaða allra leiðsögumanna sem starfa hérlendis
  •  Mótun skilvirkrar framtíðarsýnar Félags leiðsögumanna með félagsmönnum

Nýkjörin stjórn er full eldmóðs. Við ætlum að efla upplýsingaflæði til félagsmanna til muna, m.a. með því að senda reglulega út rafrænt fréttabréf.

En án stuðnings og þátttöku grasrótarinnar erum við lítils megnug, félagið okkar þarf fleiri hendur og raddir upp á dekk. Því vona ég að heyra sem mest frá ykkur og býð ykkur velkomin á skrifstofu félagsins til skrafs og ráðagerða.

Að því sögðu fer ég á ljóðrænur nóturnar hér í lokin og leyfi stórskáldinu Einari Ben að eiga siðasta orðið með einni línu úr kvæði hans Fákum: ,,maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.”

STÖNDUM SAMAN!

VÖXUM SAMAN!

Takk fyrir mig.

Jóna Fanney Friðriksdóttir

Ps. Fyrir þau ykkar sem þekkið ekki deili á mér, vísa ég á kynningarsíðu framboðs míns: https://amos.is/

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image