×

Warning

JUser: :_load: Unable to load user with ID: 1411998
14
Okt

Slysavarnir 2021 - ráðstefna á vegum Landsbjargar

Ágætu félagsmenn,

Vakin er athygli á neðangreindri ráðstefnu Landsbjargar um öryggi og slysavarnir. Á ráðstefnunni verða öryggismál í ferðaþjónustu áberandi að vanda og eru félagsmenn hvattir til að skrá sig leiks.

 

Ráðstefnan Slysavarnir er haldin á tveggja ára fresti og er nú haldin í fjórða sinn. Ráðstefnan fer fram á Grand Hótel, Reykjavík dagana 15. og 16. október.Á ráðstefnunni eru öryggismál í ferðaþjónustu áberandi að vanda. Má nefna öryggismál í þjóðgörðum, stýring ferðamanna að gosinu á Reykjanesi og Vegrún – samræmt merkingakerfi. Einnig má minnast á áhugavert erindi Hauks Herbertssonar hjá Mountaineers þar sem hann fjallar um aðstæður þær sem sköpuðust í janúar á síðasta ári þegar fyrirtækið lenti í vandræðum með tæplega 40 ferðamenn í vonskuveðri.

Október 2021

15-16

Staðsetning:
Grand Hótel Reykjavík

Fyrirlestrar

Dagskrá

 

Haukur Herbertsson er rekstrarstjóri Mountaineers of Iceland og menntaður véltæknifræðingur. Hann hefur verið í fjallamennsku og ferðaþjónustu frá unga aldri.Í janúar 2020 þurftu viðbragðsaðilar að liðsinna fyrirtækinu Mountaineers þegar óveður skall á í ferð þeirra við Langjökul. Haukur fer yfir atvikið og lærdóminn sem má draga af því.

 

Meðal áhugaverðra fyrirlesara


> Jónas Guðmundsson
Eldgosið á Reykjanesi er líklega vinsælasta gos íslandssögunnar ef svo má að orði komast en tugþúsundir innlendra sem erlendra ferðamanna hafa lagt leið sína á gosstöðvarnar. Því hafa fylgt margar áskoranir og mun Jónas fjalla um hvernig stýringu ferðamanna var háttað, hvað var vel gert og af hverju getum við lært. Þrátt fyrir að stýring ferðamanna sé samofin slysavörnum horfum við einnig á það hvað við gerðum í slysavörnum og hvort við mundum vilja gera eitthvað öðruvísi í næsta gosi.>  Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir
Landvörður og fyrrverandi þjóðgarðsvörður á svæðinu við Öskju í Ódáðahrauni en starfar nú sem verkefnastjóri skipulags- og öryggismála hjá Vatnajökulsþjóðgarði. Jóhanna mun í erindi sínu fjalla um öryggismál og forvarnir í þjóðgarði með Vatnajökulsþjóðgarð til hliðsjónar. Hún mun horfa til spurninga eins og Hvaða öryggis geta gestir vænst í þjóðgarði? Hvar liggja mörk þess að leiðbeina og loka? og Hverjir koma að áhættumati og hverjir bregðast við þegar á reynir?>  Gerður Jónsdóttir & Atli Þór Árnason
Atli og Gerður mun í erindi sínu fjalla um Vegrúnu, nýtt merkingakerfi í ferðaþjónustu en góðar merkingar eru forsendur í fækkun slysa.
Vegrún er ætlað öllum þeim sem setja upp merkingar á ferðamannastöðum eða friðlýstum svæðum. Vegrún stendur öllum til boða jafnt opinberum aðilum sem og einkaaðilum um allt land. Kerfið er hannað til að samræma merkingar hér á landi, til einföldunar fyrir uppbyggingaraðila og til að bæta upplifun ferðamanna, auka gæði, samræma upplýsingagjöf og auka öryggi og er þannig mikilvægur hluti af stýringu ferðamanna, slysavörnum.
 
> Andreas Ö.M. Aðalsteinsson
Digital Marketing Manager hjá SAHARA mun í erindi sínu fara yfir fjölbreytta þætti stafrænnar markaðssetningar. Landslagið hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum sem bíður upp á ný og spennandi tækifæri fyrir þá sem sinna slysavarnaverkefnum sem koma þarf á framfæri. Samkeppnin er einnig að aukast og því þarf að vanda vel til verka þegar kemur að uppsetningu, mælanleika og val á réttu markaðsefni fyrir kostaðar herferðir.

Skoða fleiri fyrirlesara

 

Slysavarnaráðstefnan hefur nú verið haldin í 4 ár og er orðin fastur liður hjá mörgun sem láta sig varða slysavarnir og öryggismál. Hér má sjá svipmyndir frá fyrri ráðstefnum.

 

Veggspjaldasýning

Samhliða ráðstefnunni verður veggspjaldasýning þar sem ráðstefnugestir geta kynnt sér ýmsan fróðleik. Fyrirtæki, stofnanir og slysavarnadeildir kynna vörur, verkefni og niðurstöður kannana og rannsókna. Gott tækifæri fyrir ráðstefnugesti til að ræða málin og fá svör við fyrirspurnum.

Skráning

Slysavarnir á Facebook

Slysavarnir á Facebook

Vefur ráðstefnunar

Vefur ráðstefnunar

Copyright © 2021 Slysavarnafelagid Landsbjorg, All rights reserved.
Netfang þitt var handvalið á lista yfir markhóp ráðstefnunar af starfsfólki Slysavarnafélagsins Landsbjargar.Heimilsfang okkar er:

Slysavarnafelagid Landsbjorg

Skogarhlid 14

Reykjavik 104

Iceland


Add us to your address book

Vilt þú breyta skráningu þinni á póstlistanum?
Þú getur uppfært skráninguna þína eða afskráð þig af listanum.

09
Okt

Af menningarlæsi leiðsögumanna

Miðvikudaginn 6. október birti Friðrik Rafnsson, formaður Leiðsagnar-stéttarfélags leiðsögumanna, eftirfarandi grein í Fréttablaðinu.

Flestir Íslendingar hafa skiljanlega sjaldan eða aldrei notið þjónustu íslenskra leiðsögumanna hér heima, en hafa væntanlega séð þeim bregða fyrir klædda skrautlegum útivistarfatnaði malandi með hóp túrista á eftir sér á helstu ferðamannastöðum, haldandi á hljóðnema í rútu sem troðfull er af ferðamönnum eða leiðandi hópa fólks um þéttbýli jafnt sem fjöll og firnindi.

Hvernig sem því er háttað er þarna á ferðinni framlínufólkið í ferðaþjónustunni því faglærðir leiðsögumenn, sem aukinheldur að stærstum hluta háskólamenntaðir, eru það fólk sem sér um að framkvæma skipulagðar ferðir og ber einna mesta ábyrgð á því að stór hluti ferðamanna sem hingað koma njóti þess að ferðast um landið öruggir og snúi aftur ánægðir og margs vísari um land og þjóð.

Augu og eyru

Vissulega felst starf okkar leiðsögumanna í að miðla þekkingu á landi okkar, náttúru, sögu og menningu. Halda athygli farþeganna klukkutímum, stundum dögum saman, fræða þá og skemmta þeim enda eru þeir hingað komnir til að njóta lífsins. Þess vegna þarf góður leiðsögumaður að rækta í sér sagnamanninn, þá skemmtilegu íslensku hefð, kunna að segja frá. En hann þarf líka að kunna að „lesa salinn“ eins og leikarar kalla það, skynja væntingar farþeganna og laga sig að þeim. Leiðsögumaður sem fer til dæmis Gullhring með breskar unglingsstúlkur einn daginn og franska eldri borgara næsta dag matreiðir sama fróðleik augljóslega ekki á sama hátt ofan í svo ólíka hópa. Þess vegna eru eyrun ekki síður mikilvæg fyrir góðan leiðsögumann en munnurinn.

Menningarlæsi

Málið flækist enn þegar leiðsögumaður er með fólk af mörgum þjóðernum í sama hópnum. Yfirleitt er þá notast við það tungumál sem flestir sem hingað koma tala að einhverju marki, ensku, en sú kunnátta er stundum ekki burðug meðal allra farþega. Þá skiptir lipurð leiðsögumannsins í mannlegum samskiptum enn meira máli. Og það mætti jafnvel taka þetta enn lengra og segja að þá skipti menningarlæsi leiðsögumannsins höfuðmáli.

Menningarlæsi er flókið hugtak, en í stuttu máli gerir sá eða sú sem er læs á menningu og trúarbrögð annarra sér grein fyrir helstu siðum og venjum sem einkenna hana og virðir það í hvívetna. Annars getur viðkomandi lent í því að særa eða móðga viðkomandi sárlega. Menningarheimar Bandaríkjamanna, Indverja, Japana, Marokkóbúa og Frakka eru til dæmis gerólíkir, borðsiðir og persónumörk mismunandi. Leiðsögumenn verða að kunna skil á þeim og þjóna þeim samkvæmt því og það er ekki alltaf auðvelt, einkum þegar hópar eru blandaðir. Aðferðin sem ég held að flestir leiðsögumenn beiti þegar þeir eru með farþega frá gerólíkum menningarheimum er því sú að feta vandaðan meðalveg í ferðunum og reyna að prjóna við fróðleikinn með einstaka farþegum í stoppum eða þegar færi gefst og tryggja þannig að allir séu ánægðir.

 

Öryggi og gleði á norðurhjara veraldar

Við heimafólkið kippum okkur ekkert upp við það þótt veðrið breytist í sífellu, jörð skjálfi og eldfjöll gjósi. Mörgu ferðafólki sem hingað kemur bregður hins vegar verulega í brún við það eitt að aka í gegnum ógnvekjandi hraunbreiðu í misjöfnu veðri frá Keflavíkurvelli til Reykjavíkur og spyr sig ráðvillt hvert það sé eignlega komið. Er það virkilega komið þangað sem það vildi fara, í ævintýraferð á eldfjalla- og jöklaeyju á hjara veraldar þar sem náttúruöflin eru ógnvekjandi? Þá sem endranær eru faglærðir og vel þjálfaðir leiðsögumenn lykilfólkið í ferðaþjónustunni. Þeir eru brúarsmiðir milli menningarheima, trygging fyrir því að erlendu gestirnir okkar njóti Íslandsferðarinnar í botn, átti sig á því að þótt landið geti verið ógnvekjandi sé það líka fallegt, heillandi og spennandi. Mesta umbun leiðsögumannsins felst því í að hjálpa fólki að höndla þessar gríðarlegu andstæður, njóta þeirra og kveðja það loks örlítið ráðvillt en glatt og stolt yfir að hafa öðlast nýja og óviðjafnanlega lífsreynslu.

Höfundur er formaður Leiðsagnar, stéttarfélags leiðsögumanna

13
Sept

Sértilboð til félagsmanna í Leiðsögn - Stéttarfélagi leiðsögumanna

Sértilboð til félagsmanna í Leiðsögn - Stéttarfélagi leiðsögumanna HAUST 2021

Félagsmönnum í Leiðsögn - Stéttarfélagi leiðsögumanna býðst 20% afsláttur af tveimur námskeiðum á haustmisseri hjá Endurmenntun. Um er að ræða námskeið í öllum námskeiðsflokkum að undanskildum námskeiðum með erlendum sérfræðingum og námskeiðum sem tilheyra lengra námi.  Skráning fer fram á heimasíðu Endurmenntunar. Til að virkja afsláttinn þarf að skrá kóðann EHILS21 í reitinn "Athugasemdir".
Athugið að við skráningu sjáið þið óbreytt námskeiðsverð. Afslátturinn kemur fram á greiðsluseðli.

Námskeið tengd ferðaþjónustunni: Ferðaþjónustan

 

Siðfræði náttúruverndar
Þri. 5. og 12. okt. kl. 13:00 - 15:00 Siðfræði snýst meðal annars um faglega og fræðilega greiningu á ágreiningsmálum, t.d. umhverfismálum sem eru eitt mesta hitamál samtímans. Óvissan um hina réttu niðurstöðu á sér rætur í ólíkum hagsmunum þeirra sem ákvarðanir snúa að og þeirri staðreynd að við þurfum saman að komast að niðurstöðu. Á þessu námskeiði verður farið yfir hvað það felur í sér að nálgast náttúruvernd frá sjónarhóli siðfræði og velt upp þeirri spurningu hvort slík nálgun sé eftirsóknarverð.
NÁNAR HÉR

 

ÖLL NÁMSKEIÐ Í STARFSTENGDRI HÆFNI

ÖLL NÁMSKEIÐ Í
PERSÓNULEGRI HÆFNI

 

ÖLL NÁMSKEIÐ HAUSTMISSERIS

08
Sept

Pistill frá formanni

Kæra leiðsögufólk

Eitt af því sem þarf að efla innan Leiðsagnar er aukið upplýsingaflæði. Ég hyggst því senda reglulega pistla til að upplýsa
ykkur um gang mála, en jafnframt er ykkur velkomið að senda fyrirspurnir, kvartanir, hrós eða hvers kyns ábendingar á
formaðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. um hvaðeina sem ykkur liggur á hjarta, og mun ég reyna að svara þeim eftir bestu getu.

Ég vil byrja því að þakka fyrir það traust sem félagsmenn sýndu mér á aðalfundi félagsins 8. júní síðastliðinn þegar ég var
kosinn formaður félagsins. Það var vissulega afar mjótt á mununum, aðeins eitt atkvæði skildi að okkur Óskar Kristjánsson,
mótframbjóðanda minn og fyrrum gjaldkera félagsins. Ég vil þakka honum drengilega umræðu í aðdraganda kosninganna og
vona að við fáum að njóta krafta hans áfram í þágu félagsins.

Nýja stjórnin hefur lent í nokkrum áföllum á þessum fyrstu mánuðum; Júlíus Freyr Theodórsson sagði af sér sökum anna og
var Snorri Steinn Sigurðsson kjörinn varamaður í hans stað. Fyrir rúmum tveimur vikum tilkynnti ritari félagsins, Jakob S.
Jónsson, skyndilega afsögn sína úr stjórn, trúnaðarráði og kjaranefnd, en ákvað síðan að draga hana til baka þar sem ekki
var um neinn málefnalegan ágreining að ræða, og var það samþykkt á fundi stjórnar og trúnaðarráðs í gær, mánudaginn
6.september.

Stjórn stéttarfélagsins er því þannig skipuð nú: Friðrik Rafnsson formaður, Snorri Steinn Sigurðsson varaformaður, Valva
Árnadóttir gjaldkeri, Jakob S. Jónsson ritari og Harpa Björnsdóttir meðstjórnandi. Frá aðalfundi hefur stjórn fundað fimm sinnum
til að ræða og ákveða ýmis mál. Meðal þeirra má nefna skipulag á upprifjunarnámskeiði um skyndihjálp á vegum Rauða
krossins, samning um leigu á nýju skrifstofuhúsnæði að Stórhöfða 29, útgáfu kynningarefnis fyrir nýja leiðsögumenn, kynningu
á leiðsögumannsstarfinu í Verkmenntaskóla Akureyrar og ýmis önnur mál sem koma fram í fundargerðum á vef Leiðsagnar.

Þegar stjórnarskipti áttu sér stað í júní var óvissan um sumarið algjör vegna covid-19, en þegar losað var um hömlur í byrjun
júlí tók ferðaþjónustan snöggan kipp og undanfarna mánuði virðast leiðsögumenn hafa haft nóg að gera, og sumir gott betur
en það, einkum ökuleiðsögumenn. Ég hef heyrt það og séð á ferðum mínum í sumar að leiðsögumenn voru fegnir og glaðir að
geta loks aftur farið að vinna við það sem þeim finnst skemmtilegra og meira gefandi en flest annað. Fljótlega fóru þó að
heyrast þær raddir að smitvarnir í rútum, á veitingastöðum og hótelmóttökum væru ekki alltaf sem skyldi. Til að bregðast við
því skrifaði ég grein í Fréttablaðið miðvikudaginn 4. ágúst undir yfirskriftinni Framlínufólkið í ferðaþjónustunni" þar sem segir
m.a. "Þrátt fyrir frábæran árangur í sóttvörnum og bólusetningu hvíldi samt skuggi veirunnar yfir öllum sem umgengust okkar
erlendu gesti og gerir það nú sem aldrei fyrr þegar hún virðist enn og aftur komin í veldisvöxt. Ég leyfi mér að fullyrða að
langflest ferðaþjónustufyrirtæki gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir smit farþega og starfsmanna; spritta,
nota grímur, hólfaskipta og uppfræða ferðafólkið. Það breytir því ekki að leiðsögumenn eru eðli starfsins samkvæmt í
langmestri og nánustu samskiptunum við okkar erlendu gesti og eru þar af leiðandi í stöðugri hættu að smitast. Við það bætist
að ráðningasamband leiðsögumanna og ferðaþjónustufyrirtækja er stundum ekki nógu skýrt og veikindaréttur óljós og ég veit
dæmi þess að þaulvanir leiðsögumenn hafi afþakkað verkefni af þessum ástæðum. Kæruleysi eða reddingar við núverandi
aðstæður er ekki boðlegt." Nú, rúmum mánuði seinna, er þetta nánast óbreytt. Förum varlega og verum fagleg, það er allra
hagur.

Nokkuð hefur borið á því að erlendir aðilar hafi tekið upp fyrri háttu, rútufyrirtæki hafi að sögn verið með ferðir þar sem
réttindalausir ökuleiðsögumenn hafi verið að störfum og að erlendir hópstjórar hafi gengið í störf íslenskra, faglærðra
leiðsögumanna. Slíkt er ekki boðlegt og mun Leiðsögn þrýsta á að tekið verði á þessu í samvinnu við SA, SAF og þar til bær
yfirvöld.

Nú þegar ferðaþjónustan er (vonandi) að taka verulega við sér hefur Leiðsögn fengið ábendingar um vaxandi áherslu
fyrirtækja að semja við leiðsögumenn um verktöku í stað þess að vera launþegar, og bjóða verktakaálag sem er fjarri því að
standa undir launatengdum greiðslum. Auk þess er þannig ráðningasamband óboðlegt fyrir sérfræðinga eins og leiðsögumenn.
Til að auðvelda leiðsögumönnum að átta sig á því hvað verktaka gefur raunverulega í laun, verður sérhönnuð reiknivél
bráðlega verða sett inn á innri vef félagsins þar sem fólk getur slegið inn ýmsar launaforsendur og séð hvernig það kemur út.
Það mun auðvelda fólki mjög vinnuna og getur orðið mikilvægt hjálpartæki í komandi kjarasamningalotu.

Eins og við vitum er starf leiðsögumannsins afar skemmtilegt og gefandi. En því fylgir líka mikil ábyrgð og það skilar sér ekki
nægilega vel í þeim launum sem við fáum greidd fyrir okkar vinnu.  Til að breyta því þurfum við stöðugt að sinna starfi okkar
af metnaði, fagmennsku og alúð gagnvart farþegunum okkar og tryggja að ferðaþjónustufyrirtækin, vinnuveitendur okkar,
standi sig í stykkinu í hvívetna. Ennfremur þurfum við leiðsögumenn að stilla betur saman strengi, skiptast á skoðunum og
komast að sameiginlegri niðurstöðu sem þokar okkur áfram og upp. Það er sameiginlegur hagur okkar allra.

Reykjavík, 7. september 2021.

Friðrik Rafnsson, formaður Leiðsagnar - stéttarfélags leiðsögumanna

23
Ágúst

Áfallaþol ferðaþjónustu og órofinn rekstur grundvöllur öryggis starfsfólks fyrirtækja í ferðaþjónustu á meðan hjarðónæmi er náð

Fréttaflutningur hefur leitt í ljós að töluverðar líkur eru á að COVID-19 smit geti haft neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækja á næstu vikum og mánuðum á meðan COVID-19 gengur yfir samfélagið, með stýrðum hætti eins og kostur er, þar til hjarðónæmi er náð meðal þjóðarinnar.

Ný afstaðin ríkisstjórnarfundur staðfestir mat sóttvarnaryfirvalda að ekki séu aðrar leiðir færar þar sem bólusettir einstaklingar geta verið smitberar eins og aðrir þrátt fyrir að bólusetningar veiti mjög góða vörn gegn alvarlegum veikindum.

Því er ljóst að framundan er tímabil sem getur markast af óvissu og truflunum á starfsemi fyrirtækja í tengslum við sóttkví og því mikilvægt að fyrirtæki hugi að og uppfæri viðbragðsáætlanir sínar til að tryggja áfallaþol og órofinn rekstur.

Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa og Leiðsögn- félag leiðsögumanna vilja því í sameiningu benda ferðaþjónustufyrirtækjum á eftirfarandi:

  • Áhersla á sóttvarnir á vinnustöðum og persónulegar sóttvarnir er enn afar mikilvæg svo hemja megi útbreiðslu smita og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið. Sjá t.d. Hreint og öruggt verkefnið á vef Ferðamalastofu.
  • Rekstraraðilar þurfa að minna starfsfólk á að fara í sýnatöku ef einhver einkenni gera vart við sig.
  • Rekstraraðilum er bent á að hvetja starfsfólk til að þiggja bólusetningu, enda veitir hún mjög góða vörn gegn alvarlegum veikindum.
  • Rekstraraðilar þurfa að uppfæra viðbragðsáætlanir sínar með sveigjanleika til lengri tíma í huga. M.a. þarf að huga að sóttvarnarhólfaskiptingu og gera prófanir á viðbragðsáætlunum vegna smita til að tryggja órofna starfssemi sem best.
  • Gott er að skipta starfólki upp í mismunandi vaktir án skörunar eins og kostur er. Þannig má minnka hættuna á að fjöldi starfsfólks fari í sóttkví á sama tíma ef upp koma smit.
  • Skynsamlegt er að miða áætlanir við afleiðingar frekar en atburði og að gera prófanir á viðbrögðum.
  • Ekki er hægt að gera ráð fyrir að smitaður einstaklingur geti unnið að heiman í einangrun.
  • Vinnustaðir þurfa að hafa kennitölur, netfangalista og símanúmer starfsmanna tilbúin vegna smitrakningar og tilgreina tengilið vegna hennar.
  • Greining smitaðra starfsmanna utan sóttkvíar felur í sér meiri röskun á starfssemi en 7 daga öryggissóttkví.

Sem ein af grunnstoðum samfélagsins er ferðaþjónusta mikilvæg öllum landsmönnum. Ekki aðeins njóta landsmenn þjónustu hennar t.d. yfir sumartímann heldur er ferðaþjónusta undirstaða atvinnulífs víða á landsbyggðinni. Samtal ferðaþjónustunnar við hagaðila á komandi misserum verður við þessar aðstæður mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Með samstilltu átaki munum við komast á þann stað að geta lifað, og starfað, með veirunni.

Rekstraraðilar í ferðaþjónustu geta sótt nánari upplýsingar og ráðgjöf til Samtaka ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu, Almannavarna og Embættis landlæknis.

04
Ágúst

Framlínufólkið í ferðaþjónustunni

Eftirfarandi grein eftir Friðrik Rafnsson, formann Leiðsagnar – stéttarfélags leiðsögumanna, birtist í Fréttablaðinu miðvikudaginn 4. ágúst. 

Það er táknrænt að leiðsögumaður skuli ævinlega leiða hóp ferðamanna jafnt í þéttbýli sem á fjöllum, sitja fremst í rútum, undir stýri í ökuleiðsögn. Leiðsögumaðurinn er ábyrgur fyrir framkvæmd ferðar eins og hún var seld farþegum, velferð þeirra og öryggi í samvinnu við bílstjóra ef svo ber undir. Í stuttu máli, þá heldur leiðsögumaðurinn einatt um alla þræði ferðarinnar, sér um að allt gangi smurt og að farþegar geti notið landsins okkar góða öryggir og áhyggjulausir.

                Það ríkti mikil gleði og tilhlökkun meðal leiðsögumanna þegar ferðamenn gátu aftur farið að streyma til landsins fyrr í sumar, en þá hafði ferðaþjónustan sem kunnugt er verið algerlega lömuð í hálft annað ár vegna Covíð-19. Leiðsögumenn voru svolítið  eins og kálfar að vori, rétt eins og farþegarnir, og fögnuðu því mjög að geta aftur farið að vinna og fræða erlendu gestina um íslenska náttúru, sögu og menningu.

                Þrátt fyrir frábæran árangur í sóttvörnum og bólusetningu hvíldi samt skuggi veirunnar yfir öllum sem umgengust okkar erlendu gesti og gerir það nú sem aldrei fyrr þegar hún virðist enn og aftur komin í veldisvöxt. Ég leyfi mér að fullyrða að langflest ferðaþjónustufyrirtæki gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir smit farþega og starfsmanna, spritta, nota grímur, hólfaskipta og uppfræða ferðafólkið. Það breytir því ekki að leiðsögumenn eru eðli starfsins samkvæmt í langmestri og nánustu samskiptunum við okkar erlendu gesti og eru þar af leiðandi í stöðugri hættu að smitast. Við það bætist að ráðningasamband leiðsögumanna og ferðaþjónustufyrirtækja er stundum ekki nógu skýrt og veikindaréttur óljós og ég veit dæmi þess að þaulvanir leiðsögumenn hafi afþakkað verkefni af þessum ástæðum. Kæruleysi eða reddingar við núverandi aðstæður er ekki boðlegt.

                Endurreisn ferðaþjónustunnar er lykillinn að uppbyggingu efnahagslífisins út um allt land. Við þurfum að gera það faglega en varlega, annars slær í bakseglin. Við höfum mörg tromp á hendi, öryggi, náttúrufegurð, sífellt betri innviði og vel menntað fagfólk. Takist öllum sem í ferðaþjónustunni að spila vel og skynsamlega úr þessari viðkvæmu stöðu verður framtíð ferðaþjónustunnar björt og góð. Ég leyfi mér fyrir hönd íslenskra leiðsögumanna að lofa því að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að svo megi verða.

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image