×

Warning

JUser: :_load: Unable to load user with ID: 1411998
Fréttir

Fréttir

16
Nóv

Ný upplýsingasíða fyrir atvinnuleitendur

Föstudaginn 13. nóvember setti ASÍ í loftið sérstaka upplýsingasíðu fyrir þá sem misst hafa vinnuna, glíma við erfiðleika og vilja bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Sérstök áhersla er lögð á að ná til útlendinga á íslenskum vinnumarkaði þar sem skortur hefur verið á greinargóðum upplýsingum fyrir þann hóp.

11
Nóv

Leið­sögu­menn lenda illa í því

Það er eins og það komist seint og illa til skila að ráðningar­sam­band leið­sögu­manna er mjög sér­stakt. Formaðurinn skrifar grein um málið í Fréttablaðið í dag.

10
Nóv

Staða mála varðandi nýsamþykkta lokunar- og tekjufallsstyrki

Upplýsingar til félagsmanna um stöðu mála varðandi nýsamþykkta lokunarstyrki (áframhald) og tekjufallsstyrki.

Formaður Leiðsagnar mætti fyrir nokkru á fund hjá Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og skilaði Leiðsögn í framhaldi af því inn áliti á frumdrög þessara laga, og hafði það áhrif á loka afgreiðslu laganna.

Frumvarp þar um voru samþykkt á Alþingi fimmtudaginn 5. nóvember. Ekki eru komin númer á lögin.

Styrkir þessir eru ætlaðir þeim sem hefur verið gert að stöðva starfsemi sína vegna sóttvarnaraðgerða og/eða þeim sem orðið hafa fyrir miklu tekjufalli vegna áhrifa faraldursins. Allir þeir sem stunda atvinnurekstur munu geta sótt um, hvort sem reksturinn er í gegnum félag eða á eigin kennitölu einstaklings, en ná þarf tilteknu tekjufalli á milli áranna 2019 og 2020 til að styrkur komi til álita, auk annarra skilyrða og takmarkana.

Þegar er hafin vinna við gerð umsóknar, leiðbeininga og annað það sem til þarf. Ljóst er að sú vinna mun taka einhverjar vikur en róið er að því öllum árum að unnt verði að sækja um styrki sem fyrst. Búast má við frekari leiðbeiningum á vefsíðu Skattsins í næstu viku og síðan verður auglýst sérstaklega þegar opnað verður fyrir umsóknir.

Frá og með mánudeginum 9.nóvember var unnt að leita nánari upplýsinga í beinum þjónustusíma Skattsins 4421414. Eins er hægt að óska eftir upplýsingum með tölvupósti sem sendist til This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Það mun líða einhver tími þangað til hægt verður að sækja um. Smíði á rafrænum umsóknum þar sem eru mörg skilyrði og mörg atriði sem þarf að taka til skoðunar tekur sinn tíma. Allt er gert til að þessi tími verði sem stystur. Eftir að opnað verður fyrir móttöku umsókna, og ef þær eru fullnægjandi, ætti á hinn bóginn ekki að líða langur tími þangað til afgreiðsla fer fram.

09
Nóv

Tökustaðurinn Ísland

Fræðslunefnd hefur að þessu sinni hefur í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands og Íslandsstofu sett á laggirnar örfund um "Tökustaðinn Ísland". Leiðsögumenn á ferð um landið fræða gesti sína m.a. um mikilvægi kvikmyndaiðnarins og í tengslum við það er fróðlegt að þekkja til tökustaða ýmissa kvikmynda og þáttaraða sem bæði innlend og erlend kvikmyndafyriræki hafa nýtt sér. Og í ljósi þess mæta sérfræðingar sem þekkja vel til efnisins.
Einar Hansen Tómasson hjá Íslandsstofu fræðir okkur um verkefnið "Film in Iceland, mikilvægi þess fyrir ferðaþjónustuna, nýjustu markaðsherferð og fl. Þór Kjartansson hjá Truenorth ræðir verkefnin sem framleiðslufyrirtækið hefur tekið að sér og tökustaði þess í stórum verkefnum.
Einar Hansen Tómasson er forsvarsmaður Film in Iceland og fagstjóri orku og grænna lausna hjá Íslandsstofu.  Þór Kjartansson er framleiðandi og einn eiganda Truenorth.  
 
Fyrirlesturinn verður haldinn miðvikudaginn, 25. nóvember, kl. 16:00 - 17:00 og er félögum okkar frjálst að spyrja spurninga í lok fyrirlestursins. Notast verður við fjarkennsluforritið ZOOM.
 
Slóðin um:Tökustaðinn Ísland – sjá hér: https://www.endurmenntun.is/namskeid/stakt-namskeid?courseID=308H20

Upptakan af fyrirlestrinum verður send á netfang þátttakenda og aðgengileg í eina viku eftir að fyrirlestrinum lýkur.

Stéttarfélagið Leiðsögn greiðir niður námskeiðið en eftir stendur skráningargjaldið sem er einungis 1.000 kr.! Námskeiðið er aðeins fyrir félagsmenn Leiðsagnar.

Fyrir hönd Fræðslunefndar Leiðsagnar,

Guðný Margrét Emilsdóttir
Júlíus Freyr Theódórsson
Lovísa Birgisdóttir
08
Nóv

Fréttamolar frá formanni


Kæra leiðsögufólk. 

Það eru sérkennilegir tímar hjá okkur í Leiðsögn eins og þið vitið öll. Stjórn félagsins og fleiri leggja sig fram við að vinna að hag félagsmanna og halda uppi merki stéttarinnar þótt lítið sé umleikis í ferðaþjónustunni um þessar mundir. Þeim mun mikilvægara er að nýta tímann vel og vinna okkur í haginn þar til ferðamenn fara að streyma hingað til lands aftur. Enginn veit hvenær það verður en vonandi verður þess ekki langt að bíða. Hér á eftir eru nokkur atriði sem unnið hefur verið að undanfarið, ykkur til fróðleiks.

Kjaranefnd. Hún var kosin á fundi Trúnaðarráðs þann 8. september. Hana skipa Jakob S. Jónsson, Valva Árnadóttir, Guðný Margrét Emilsdóttir, Stefán Arngrímsson og Pétur Gunnarsson. Kjaranefnd kaus sér Jakob S. Jónsson sem formann.

Fundur ráðherra ferðamála, Þórdísar Kolbrúnu R. Gylfadóttur og fulltrúa Leiðsagnar, stéttarfélags leiðsögumanna, fimmtudaginn 17.9.2020.
Fyrir hönd Leiðsagnar mættu Pétur Gauti Valgeirsson, formaður, Friðrik Rafnsson, ritari og Jakob S. Jónsson sem situr í fagráði, kjaranefnd og trúnaðarráði.
Leiðsögumenn hafa lengi unnið að því að fá lögvernd á starfsheiti sitt og skapa betri umgjörð um starf sitt. Í þessu samhengi erum við að tala um leiðsögn í atvinnuskyni (gegn gjaldi).  Hér á landi eru ýmis séríslensk vandamál og aðstæður, sem tengjast helst óblíðu og síbreytilegu veðurfari og viðkvæmri náttúru, en einnig sögu og menningu okkar. Leiðsögumenn eru sérfróðir í þessu og hafa fengið menntun og þjálfun í að miðla þessu til erlendra gesta okkar.
Núna eru mjög sérstakar aðstæður í samfélaginu, sérstaklega í ferðaþjónustunni. En í því felast einnig tækifæri. Við getum notað þetta óvænta hlé til endurskipuleggja okkur og hafa áhrif á þróun ferðaþjónustu á Íslandi. Það er mikil hætta á atgervisflótta úr stéttinni og á að mikil þekking og reynsla tapist. Við teljum að besta leiðin til að taka á því sé að hækka menntunarstig. Þannig aukum við gæði, öryggi og tryggjum hag neytenda betur. Þannig verndum við líka náttúru Íslands og ímynd landsins. Leiðsögumenn tryggja ekki bara aðeins öryggi þeirra ferðamanna sem eru í hóp með þeim, heldur líka þeirra sem eru á sama svæði. Þetta á jafnt við umferðaröryggi sem og náttúruvá.
Leiðsögn hefur verið í samstarfi við SAF síðastliðið ár við að styrkja faglega leiðsögn á Íslandi og styrkja formlega starf leiðsögumanna, í samræmi við bókun í kjarasamningi frá júní 2019. Þar er einnig talað um að beita sér gegn félagslegum undirboðum, vernda samkeppnisaðstöðu íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja og leiðsögumanna.
Í framhaldi af þessum fundi varð ráðuneytið að ósk Leiðsagnar um að setja á laggirnar samstarfsnefnd um þetta verkefni. Auk eins fulltrúa Leiðsagnar sitja í nefndinni fulltrúar Ferðamálastofu, Hæfnisseturs ferðaþjónustunnar, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Samtaka ferðaþjónustunnar og auðlinda- og umhverfisráðuneytis, einn frá hverjum aðila. Frumiðurstöðum skal skilað eigi síðar en 15. janúar 2021 og lokaskýrslu 15. mars. Samþykkt var á stjórnarfundi Leiðsagnar að tilnefna Jakob S. Jónsson fulltrúa Leiðsagnar í nefndina. Hann situr í trúnaðar- og fagráði og kjaranefndi og þekkir þennan málaflokk vel. Afrakstur þessarar vinnu verður kynntur þegar tilefni þykir til og verður haldinn sérstakur félagsfundur um efnið þegar lokaskýrsla liggur fyrir.

Framlenging tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Þrátt fyrir að allir viðurkenni mikilvægi leiðsögumanna í ferðaþjónustunni hafa þeir notið takmarkaðs skilnings hjá yfirvöldum undanfarna mánuði, þeir hafa lent illa í áhrifum af COVID19 og fallið milli skips og bryggju í ýmsum annars ágætum björgunaraðgerðum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir.
Margir leiðsögumenn sóttu um bætur og fóru á atvinnuleysisbætur í lok mars eða snemma í apríl og því rann þriggja mánaða tekjutenging þeirra á atvinnuleysisbótum út í júní eða júlí sem þýðir að þeir voru ekki lengur á tekjutengingu núna í byrjun september.
Fjölmargar fyrirspurnir hafa borist Leiðsögn undrar fólk sig á þessari stöðu. Getur það staðist að það fólk, Leiðsögumenn, sem lenti í verstu hremmingunum í vor og passaði ekki inn í hlutabótaleiðina falli enn einu sinni í gegnum möskvana á björgunarnetinu, einungis vegna þess að það er miðað við 1. september?
Þetta er augljós galli á kerfinu. Þetta veldur því að fólk sem féll milli skips og bryggju í fyrri aðgerðum er enn og aftur að upplifa að þeim er ekki rétt hjálparhönd sem öðrum er rétt, eingöngu vegna þess að þau voru þau fyrstu sem lentu í því að missa lífsviðurværið. Þetta er að mati Leiðsagnar afar ósanngjarnt.
Stjórn Leiðsagnar krefst þess að yfirvöld leiðrétti þetta misrétti. Í því skyni skrifaði formaður bréf til forsætis- og félagsmálaráðherra, grein um efnið var birt í vefritinu Kjarnanum og bíður birtingar í Fréttablaðinu og viðtal var tekið við formann á RÚV. Erindið hefur mætt skilningi á Alþingi og erum við fullviss um að þetta verði lagað.
Nú er í meðferð á Alþingi frumvarp um tekjufallsstyrk. Það hefur tekið miklum breytingum í meðferð Alþingis og nefnda. Upphaflega átti það bara við um einyrkja og örfyrirtæki með færri en 3 starfsmenn en á nú að ná til miklu stærri hóps. Formaður var boðaður á fund á fund Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem fjallaði um þetta frumvarp og kom athugasemdum Leiðsagnar á framfæri, sem voru helst það að óskýrt væri hvað átt væri við með 3 starfsmenn, tekjufall uppá 50% væri of hátt viðmið og að ekki væri samræmi í upphæð styrks við önnur úrræði sem nú þegar væru komin fram (uppsagnarstyrkur og lokunarstyrkur).
Formaður félagsins hefur verið í miklum samskiptum við ASÍ útaf stöðunni og fengið mikla hjálp þaðan. Leiðsögn á fulltrúa í tveimur nýjum nefndum hjá ASÍ, annars vegar um framtíð ferðaþjónustunnar og hins vegar um ótrygg ráðningarsambönd.

Stefnumótun um framtíð ferðaþjónustunnar. Starfshópur var stofnaður í september s.l. að frumkvæði ASÍ um að móta stefnu varðandi ferðaþjónustunnar. Auk Leiðsagnar eiga VSFK, Efling, VR, FFÍ og Matvís fulltrúa í hópnum. Hann hefur hist fimm sinnum fram til þessa og skilar af sér áliti á næstu vikum sem þá verður kynnt meðlimum viðkomandi félaga. Friðrik Rafnsson, ritari í stjórn Leiðsagnar, er fulltrúi félagsins en einnig hefur formaður setið nokkra þeirra.

Skrifstofa á nýjum stað. Við leigjum skrifstofuhúsnæði af VM, en þeir eru að flytja og við þurfum líka að flytja. Nokkrir möguleikar eru í stöðunni og ekki búið að taka endanlega ákvörðun.
Vegna COVID19 er skrifstofan ekki opin en svarað er í síma og tölvupósti.

Fræðsluefndin hefur verið virk og skipulagt framhald af örnámskeiðunum sem voru í vor. Fyrra örnámskeiðinu er nú lokið en það fjallaði um hið merka CarbFix verkefni í tveimur fyrirlestrum og hið seinna verður miðvikudaginn 25. nóvember n.k. og fjallar um „Tökustaðinn Ísland“. Fræðslunefnd er einnig að undirbúa fleiri atburði, ef aðstæður leyfa. Hana skipa Guðný Margrét Emilsdóttir, Júlíus Freyr Theódórsson og Lovísa Birgisdóttir.


Læt þetta nægja að sinni. Framundan er líklega erfiður vetur fyrir okkur öll. Tökumst á við hann af æðruleysi og einurð og höfum hugfast að öll „það styttir alltaf upp og birtir“ eins og þar segir.


Kær kveðja,
Pétur Gauti

09
Okt

Leiðsögumenn eru lykilfólk, grein eftir Pétur Gauta formann í Kjarnanum.

Pétur Gauti Val­geirs­son, for­maður stétt­ar­fé­lags leið­sögu­manna, fer fram á að yfir­völd leið­rétti mis­rétti í garð stétt­ar­inn­ar.

Leiðsögumenn eru lykilfólk

08
Okt

Örfyrirlestur fyrir Leiðsögn

CarbFix og Kolefnishringrásin - Örfyrirlestur fyrir Leiðsögn, stéttarfélags Leiðsögumanna
 
Kæru félagar,
Fræðslunefnd Leiðsagnar hefur í samstarfi við prófessor Sigurð Reyni Gíslason og Endurmenntun Háskóla Íslands, komið nýjum örfundum á laggirnar.
 
Að þessu sinn gátum við fengið einn af bestu vísindamönnum okkar - Dr. Sigurð Reyni Gíslason rannsóknarprófessor í jarðvísindum og handhafa Íslensku fálkaorðunnar - til að upplýsa okkur um tilurð og framvindu CarbFix verkefnisins. Hann mun fyrst fara yfir stöðu kolefnisbindingar í öðrum löndum, sem er mjög mikilvægt fyrir okkur að vita, til að geta gert samanburð við lönd gesta okkar. Hann mun síðan fara yfir framvindu og stöðu kolefnisbindingar á Íslandi. Fundurinn skiptist upp í tvær útsendingar:  21. og 28. október  kl: 16:00-17:30þær verða streymdar út á Teams. Stéttarfélagið Leiðsögn greiðir niður skráningargjaldið, sem er 3000 kr. fyrir báða fyrirlestrana, innifalið í þessu gjaldi er einnig bók Sigurðar; Kolefnishringrásin. Sömuleiðis fá þáttakendur aðgang að glærum Sigurðar og öðru efni sem hann vill deila með ykkur. Nánari upplýsingar og snemmskráning - sem er til 20.október - á vef Endurmenntunar HÍ: 
Nánari upplýsingar um prófessor Sigurð Reyni Gíslason:
 
Fyrir hönd Fræðslunefndar Leiðsagnar
Guðný Margrét Emilsdóttir
Júlíus Freyr Theódórsson
Lovísa Birgisdóttir
15
Sept

Norrænir hagfræðingar skrifa - Styrkjum hina norrænu þversögn

Aðsend grein frá ASÍ

Eftir Henný Hinz, Kaukoranta Ilkka, Ola Pettersson, Roger Bjørnstad og Allan Lyngsø Madsen, aðalhagfræðinga hjá ASÍ Ísland, FFC Finnland, LO Svíþjóð, LO Noregi og FH Danmörku

Norðurlöndin eru velmegandi ríki. Ríki Norðurlanda eru einnig á meðal þeirra landa í heiminum þar sem tekjumunur er einna minnstur. Þannig var það bæði árið 2000 og árið 2010. Og þrátt fyrir Covid-19 farsóttina þá er það einnig svo árið 2020. Í stuttu máli sagt þá hefur það verið raunin árum saman.

Engu að síður heyrum oft frjálslyndar raddir sem halda því fram að tiltölulega mikil skattbyrði á Norðurlöndunum sé eins og þungur baggi sem haldi hagkerfinu niðri og telja að grípa þurfi til breytinga á skattkerfinu til þess að koma landinu út úr kreppunni. Ef aðeins persónuafsláttur og fjármagnsskattar væru lækkaðir - ef aðeins væru færri opinberir starfsmenn - ef aðeins hið opinbera væri umfangsminna - ef aðeins félagslegar bætur og greiðslur yrðu lækkaðar - já, hvað myndi þá eiginlega gerast?

Samkvæmt klassískum hagfræðikenningum þá yrðu ríki Norðurlanda mun auðugri ef við fylgdum hinum frjálslyndu tillögum og hugmyndum. Þess vegna eru Norðurlöndin raunveruleg þversögn ef maður skoðar þau með þessum frjálslyndu gleraugum. Hvernig geta Norðurlönd sýknt og heilagt verið heimshluti þar sem fólk hefur háar tekjur, atvinnuþátttaka er mikil, opinberi geirinn er stór, tekjuöryggi er gott og fyrirtæki standa sig almennt vel á alþjóðlegum mörkuðum. Þetta ætti ekki að vera hægt.

Þetta er engu að síður staðreynd og það má fyrst og fremst rekja til þriggja þátta. Í fyrsta lagi þá byggja klassískar hagfræðikenningar á þeirri forsendu að markaðnum sé best borgið án afskipta hins opinbera. Með öðrum orðum, afskipti stjórnvalda eru upphaf og endir alls ills.

Í öðru lagi þá er eina framlag hins opinbera að endurdreifa fjármunum, því er litið á það sem óvirkan þátttakanda sem eingöngu stuðlar að því að skekkja efnahagslífið með skattheimtu.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að fólk vilji ekki vinna, heldur vilji fremur lifa á félagslegum bótum.

Við sjáum hins vegar að daglegt líf er talsvert flóknara en hinar einföldu forsendur gera ráð fyrir. Tilveran er ekki bara svört eða hvít. Hin klassíska röksemdafærsla hagfræðinnar stenst því ekki í veruleikanum. Ímyndið ykkur bara hversu mikilvægt aðgengi að menntun, dagvistun, heilsugæslu, öldrunarþjónustu o.s.frv. er til aukins hagvaxtar og þátttöku í afkastamiklu atvinnulífi.

Covid-19 farsóttin hefur, með sama hætti, sýnt fram á að skattgreiðslur og tekjutrygging í gegnum hið félagslega kerfi eiga mikinn þátt í að standa vörð um áframhaldandi starfsemi fyrirtækja á almennum markaði á fordæmalausum tímum sem líkjast í engu okkar hefðbundnu tilveru. Hið opinbera hefur gert það mögulegt að mæta þessum utanaðkomandi þáttum með sameiginlegum lausnum sem hafa gagnast samfélaginu í heild og þar með átt ríkan þátt í að viðhalda eftirspurn í hagkerfinu.

Þá staðreynd að við höfum á síðustu áratugum verið á meðal auðugustu og jöfnustu samfélaga veraldar, má að miklu leyti þakka uppbyggingu norrænu velferðarsamfélaganna. Sterkum og vel skipulögðum vinnumarkaði. Opinberu kerfi, sem byggir á velferð til handa öllum. Og þjóðhagsstefnu sem miðar að því að tryggja fulla atvinnu. Með öðrum orðum, samfélagsskipulag sem byggir á samstöðu. Við skulum styrkja þann grunn svo hann megi verða okkar leið út úr kreppunni.

02
Sept

Tilboð til félagsmanna frá EHÍ

Sértilboð til félagsmanna

í Leiðsögn - Stéttarfélagi leiðsögumanna

HAUST 2020

Félagsmönnum í Leiðsögn - Stéttarfélagi leiðsögumanna býðst 20% afsláttur á tvö námskeið úr dagskrá haustmisseris hjá Endurmenntun. Um er að ræða námskeið í öllum námskeiðsflokkum að undanskildum námskeiðum með erlendum sérfræðingum og námskeiðum sem tilheyra lengra námi.  Skráning fer fram á heimasíðu Endurmenntunar. Til að virkja afsláttinn þarf að skrá kóðann EHILS20 í reitinn "Athugasemdir".

Smelltu hér til að skoða námskeiðsúrval haustsins

24
Júní

Góðir gestir komu á aðalfund Leiðsagnar

Aðalfundur Leiðsagnar var haldinn síðastliðinn fimmtudag, 18.6.2020.

Fundurinn fór fram með hefðbundnu sniði skv. lögum félagsins, en að auki fengum við tvo góða gesti: Víði Reynisson, yfirlögregluþjón og nýbakaðan fálkaorðuhafa, og Drífu Snædal, forseta ASÍ. Fundarstjóri var Magnús M. Norðdahl.

Fyrst ávarpaði Víðir fundinn og fór yfir stöðuna og hið mikilvæga hlutverk leiðsögumanna í nýrri framlínusveit í baráttunni við COVID19. 

Svo ávarpaði formaður fundinn og lýsti verkefnum síðasta starfsárs og endaði sitt mál á hugleiðingu um hlutverk og framtíð Leiðsagnar og lagði til að félagið færi í smá naflaskoðun og setti sér markmið og stefnu til framtíðar.

Félagið hefur tekið stórt stökk inn í framtíðina í tölvukerfum og bókhaldskerfum, en eftir er að stíga lokaskrefið í því með að gera svo kallaðar "mínar síður" fyrir félagsmenn til að auðvelda allar umsóknir í sjóði og gera þær fljótvirkari. Nokkur halli var á rekstri félagsins á síðasta ári út af þessu, en sá kostnaður sem er bara einu sinni og ætti að skila sér í skilvirkari störfum á skrifstofu og ætti þannig að borga sig fljótlega. 

COVID19 hefur haft mikil áhrif á leiðsögumenn, en einnig á rekstur skrifstofunnar og er tekjuhrun fyrirsjáanlegt á þessu ári. Til að draga úr kostnaði var framkvæmdastjóra (Valdimar Leó Friðrikssyni) sagt upp í byrjun maí og þökkum við honum vel unnin störf. Einnig var stjórnarmönnum fækkað úr sjö í fimm.

Ný starfsmaður tók við á skrifstofunni 1. janúar s.l. og bar vill svo vel til að það er leiðsögumaður sem þekkir okkar umhverfi vel. Þetta er Ragnheiður Ármannsdóttir og bjóðum við hana velkomna til starfa á þessum fordæmalausu tímum.

Eftir ræðu formanns ávarpaði Drífa Snædal fundinn og stappaði í okkur stálinu og bað okkur um að standa saman á þessum erfiðu tímum.

Framkvæmdastjóri kynnti ársreikninga og spannst um þá nokkur umræða. Einnig var fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár kynnt og gert er ráð fyrir miklu tapi á rekstri félagins.

Eftir fundarhlé voru lagabreytingar teknar til umfjöllunar og voru flestar tillögur samþykktar. Mest umræða spannst um tillögu um að formaður fagdeildar ætti fast sæti í stjórn félagsins, en sú tillaga var felld í atkvæðagreiðslu. Stofnaðar voru fjórar nýjar fastanefndir: fræðslunefnd, alþjóðanefnd, ritnefnd og fagráð. Fækkað var í aðalstjórn um tvo, svo að þar eru nú fjórir aðalmenn auk formanns. Varamönnum var fjölgað um tvo svo að þeir eru nú fjórir.

Svo var kosið í stjórn sem hér segir:

Friðrik Rafnsson og Júlíus Freyr Theodórsson til tveggja ára.

Vilborg Anna Björnsdóttir og Óskar Kristjánsson til eins árs.

Varamenn eru: Valva Árnadóttir, Guðný Margrét Emilsdóttir, Snorri Steinn Sigurðsson og Þorsteinn Svavar McKinstry, öll til eins árs.

Einnig var kosið í Trúnaðarráð, bæði varamenn og aðalmenn, allir til eins árs:

Aðalmenn: Elísabet Brand, Birna Imsland, Jakob S. Jónsson, Stefán Arngrímsson, Eiríkur Hreinn Helgason og Indriði H. Þorláksson

Varamenn: Þórhildur Sigurðardóttir, Guðni Gunnarsson, Pétur Gunnarsson, Jónína Birna Halldórsdóttir, Aldís Aðalbjarnardóttir og Kári Jónasson

Einnig voru kosnir tveir fulltrúar í hinar nýju nefndir, en stjórn tilnefnir þriðja fulltrúann.

Fagráð: Jakob S. Jónsson til tveggja ára og Indriði H. Þorláksson til eins árs

Alþjóðanefnd: Ragnheiður Ármannsdóttir til tveggja ára og Pétur Gunnarsson til eins árs.

Ritnefnd:  Kári Jónasson til tveggja ára og Guðrún Þorkelsdóttir til eins árs.

Fræðslunefnd: Lovísa Birgisdóttir til tveggja ára og Guðný Margrét Emilsdóttir til eins árs.

Skoðunarmenn reikninga: Snorri Ingason og Bergur Álfþórsson, báðir til eins árs.

Fundi lauk svo rétt eftir miðnætti

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var svo haldinn strax daginn eftir. Þar skipti stjórn með sér verkum sem hér segir: Vilborg Anna Björnsdóttir, varaformaður. Óskar Kristjánsson, gjaldkeri og Friðrik Rafnsson, ritari.

Sama dag mættu Pétur Gauti, Vilborg Anna og Júlíus Freyr á tvo fundi hjá ASÍ. Sá fyrri var um framtíðarsýn ferðaþjónustunnar, verkefni og áskoranir. Þar var hlustað vel á okkar innlegg. Áherslan verður lögð á sjálfbæra ferðaþjónustu í víðasta skilningi þess orðs og sérstök áhersla lögð á að byggja upp innviði (aftur í mjög víðum skilningi), auka fræðslu og menntun (einkum leiðsögumanna) og vinna gegn misrétti, félagslegum undirboðum og launaþjófnaði. Seinni fundurinn var til að undirbúa nýja fastanefnd um ótrygg ráðningarsambönd. Þar útskýrðum við hvernig þessu væri háttað hjá leiðsögumönnum og í hversu erfiðum málum við værum. Það var aftur mjög vel hlustað á okkar málflutning. Lögðum við til að áherslan væri á tvennt: reyna að laga það sem hægt er í kerfinu í dag og hjálpa þeim sem eru í mestum vanda núna, eins konar rústabjörgun, en einnig væri horft lengra fram á veginn og fundið betra og sanngjarnara kerfi og samfélagslegt öryggisnet sem virkaði og gripi okkur, en það er ekki raunin í dag.

Strax eftir helgi, mánudaginn 22. júní, mætti varaformaður í forföllum formanns á formannafund ASÍ og talaði okkar máli. Einnig mættu fyrir hönd stjórnar Óskar Kristjánsson og Friðrik Rafnsson, auk Jakobs S. Jónssonar úr Trúnaðarráði á fund í samstarfsnefnd Leiðsagnar og SA/SAF. Þar var rætt um sóttvarnir á hinni nýju víglínu í COVID19 sem er ferðaþjónustan. Einkum var hlutverk og ábyrgð leiðsögumanna í rútu rætt. Ákveðið var að útbúa uppfærðar og hagnýtar öryggis- og sóttvarnaleiðbeiningar fyrir leiðsögumenn og bílstjóra ef upp kemur grunur um smit í hópi farþega. Á fundinn mætti einnig fulltrúi sóttvarnarlæknis. Leiðbeiningarnar verða kynnar leiðsögumönnum, bílstjórum og öðrum sem málið varðar þegar þær liggja fyrir.

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image